Fótbolti

Dortmund vann fyrsta leikinn eftir þjálfaraskiptin

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þeir gulklæddu fagna í kvöld afar mikilvægum sigri.
Þeir gulklæddu fagna í kvöld afar mikilvægum sigri. Carmen Jaspersen/Getty

Dortmund vann 2-1 sigur á Werder Bremen á útivelli í þýska boltanum í kvöld, í fyrsta leiknum eftir að liðið lét Lucian Favre fara.

Svisslendingurinn var látinn fara á sunnudaginn eftir að Dortmund var niðurlægt, 5-1, gegn Stuttgart á heimavelli. Edin Terzic, aðstoðarþjálfari Favre, tók við liðinu út tímabilið og hann byrjaði vel.

Það voru einungis tólf mínútur liðnar er Raphael Guerreiro kom Dortmund yfir en Kevin Moehwald jafnaði metin á 28. mínútu. Staðan var jöfn í hálfleik.

Á 78. mínútu fengu gestirnir vítaspyrnu. Marco Reus tók spyrnuna en Jiri Pavlenka sá við honum. Reus var þó fyrstur á frákastið og kom boltanum í netið en það reyndist sigurmarkið.

Dortmund er með 22 stig í fjórða sætinu en Leverkusen er á toppnum með 25 stig. Leverkusen á þó leik til góða en Bremen er í þrettánda sætinu með ellefu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×