Innlent

Laun Katrínar Jakobsdóttur hækka um 73 þúsund krónur

Jakob Bjarnar skrifar
Katrín og fleiri ráðherrar á góðri stundu. Um áramótin fá þau svo öll dágóða launahækkun, þingmenn og ráðherrar.
Katrín og fleiri ráðherrar á góðri stundu. Um áramótin fá þau svo öll dágóða launahækkun, þingmenn og ráðherrar. vísir/vilhelm

Laun þingmanna og ráðherra hækka um 3,4 prósent um áramótin. Það þýðir hækkun um fjörutíu þúsund krónur á grunnþingafararkaup sem segir þó ekki nema hálfa söguna því um er að ræða prósentuhækkun sem leggst ofan á viðbætur sem þingmenn eru vegna formennsku í nefndum og þess háttar, sem er álag ofan á grunnþingfararkaupið.

Svo dæmi sé tekið þá hækka laun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í 2.222.272 krónur úr 2.149.200 krónum sem er um 73 þúsund króna launahækkun. Ráðherrar hækka um 66 þúsund krónur.

Hækkunin núna er hækkun sem var frestað í vor. Henni var frestað vegna Covid-ástandsins.

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata lagði fram fyrirspurn um hvernig þessu máli liði og var nú fyrst að fá svar við henni.

Björn Leví og Smári McCarthy. Píratar lögðu það til að þessari tilteknu launahækkun yrði einfaldlega sleppt en þingheimur hafði lítinn sem engan áhuga á þeirri hugmynd.vísir/vilhelm

„Það tók rúma viku fyrir fjármálaráðuneytið að svara þessari fyrirspurn, merkilegt nokk því þetta hefur væntanlega legið fyrir frá því um mitt þetta ár því Hagstofan á að reikna þetta út,“ segir Björn Leví í samtali við Vísi. En hann hefur gert þetta að umfjöllunarefni á Facebooksíðu sinni.

Þar höfum við það. Laun þingmanna og ráðherra hækka um 3,4% um áramótin (~40 þúsund kr). Hækkun sem átti að gerast 1....

Posted by Björn Leví Gunnarsson on Mánudagur, 14. desember 2020

Björn Leví telur að róið hafi verið að því öllum árum að þessi hækkun færi ekki hátt. Og svo stendur til að hækka laun þingheims aftur 1. júlí miðað við launaþróun ríkisins árið 2020.

„Það er núll gagnsæi í þessu. Við höfum ekki hugmynd um forsendur þessara útreikninga. Við sjáum ekkert hvað liggur að baki þeirra og Hagstofan gefur útreikningana ekki út opinberlega svo ég sjái, að minnsta kosti.“

Píratar gerðu tillögu um að þessar launahækkanir yrðu slegnar af, ekki frestað, vegna ástandsins í þjóðfélaginu. En þingheimur var ekki spenntur fyrir þeirri tillögu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×