Innlent

Klasasmitið gerði útslagið en erum þó á svipuðu róli

Kristín Ólafsdóttir og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/vilhelm

Sóttvarnalæknir segir klasasmit kórónuveirunnar sem kom upp í gær í búsetuúrræði fyrir hælisleitendafjölskyldur í Hafnarfirði hafa gert útslagið fyrir tölur gærdagsins. Þær séu þó á svipuðu róli og undanfarna daga en klasasmitið sýni hvað staðan sé viðkvæm.

Tólf greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, þar af sex í tengslum við klasasmitið í Hafnarfirði. Þar áður höfðu tveir greinst í húsnæðinu og alls eru því átta íbúar smitaðir, samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir bendir á að af þeim tólf sem smituðust innanlands hafi ellefu verið í sóttkví. Klasasmitið sýni þó hvað lítið megi út af bregða til að veiran sæki aftur í sig veðrið.

„En þetta sýnir hvað staðan er viðkvæm. Að það getur fljótt komið upp smit í ákveðnum hópum og þess vegna er ofboðslega mikilvægt fyrir alla núna að fara mjög varlega í þessum hópamyndunum, það er algjört lykilatriði,“ segir Þórólfur.

„Og það skiptir engu máli hvað við segjum eða bönnum eða leyfum, það er hvernig fólk hegðar sér og þess vegna biðlum við til alla að fara varlega á næstunni, þessa helgi í hópamyndunum, veisluhöldum og svo framvegis.“

Inntur eftir því hvort klasasmitið meðal hælisleitendanna sé áhyggjuefni segir Þórólfur að það sé ánægjulegt að allir sem greindust þar í gær hafi verið í sóttkví.

„En það segir bara hvað getur gerst. Og ég vona að fleiri hafi ekki smitast út frá þessum einstaklingum, það er aðalmálið núna.“

Er vitað hvernig þetta kom upp? Er grunur um að sóttvörnum hafi til dæmis verið ábótavant?

„Nei, þetta er í skoðun og rakningu. Það er ekkert meira hægt að segja um það á þessari stundu,“ segir Þórólfur.


Tengdar fréttir

Hafa ítrekað bent á að sóttvarnir séu ekki í lagi

Formaður hjálparsamtakanna Solaris segir það ekki koma á óvart að klasasmit hafi komið upp í búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Samtökin hafi ítrekað bent á að sóttvörnum sé ábótavant í úrræðunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×