Fótbolti

Argentínskur þingmaður vill setja Maradona á peningaseðil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona með heimsbikarinn eftir sigurinn á HM í Mexíkó 1986.
Diego Maradona með heimsbikarinn eftir sigurinn á HM í Mexíkó 1986. Getty/Peter Robinson

Argentína hefur verið í sárum síðan að þjóðin missti goðsögnina sína Diego Armando Maradona í lok nóvember og Argentínumenn hafa verið duglegir að heiðra sína stærstu fótboltahetju.

Diego Armando Maradona var eins og guð í heimalandinu og missir argentínsku þjóðarinnar er því mikill þegar hann lést 25. nóvember síðastliðinn.

Þingmaður að nafni Norma Durango í Argentínu vill ganga mjög langt í því að tryggja minningu Maradona og heimsmeistaratitilsins frá 1986.

Umræddur þingmaður hefur lagt það til að Maradona verði settur á peningaseðil en hann hefur lagt inn þingstillögu um málið.

Þingmaðurinn vill að mynd af Maradona verði sett á þúsund pesa seðilinn en hann jafngildir rétt rúmlega 1500 íslenskum krónum. Myndin sem kemur til greina er myndin af Maradona að skora með hendi guðs á móti Englandi í átta liða úrslitunum á HM í Mexíkó 1986.

Auðvitað er einnig líklegt að mynd af Maradona með heimsbikarinn eða að skora hið magnaða seinna mark á móti Englandi kæmu báðar sterklega til greina.

Norma Durango segir að þessi tillaga sé ekki aðeins sett fram til heiðra minningu Maradona því að hún sé einnig hagsýn.

„Þessi hugmynd er ekki aðeins sett fram til að heiðra okkar mikilvægustu hetju heldur er þetta einnig spurning um peninga. Okkur finnst að ferðamenn myndu vilja taka Maradona seðilinn aftur með sér heim,“ sagði Norma Durango.

Norma Durango segist hafa fengið mikil viðbrögð við tillögunni þó að allir séu ekki sammála henni.

Myndin á þúsund pesa seðlinum í dag er af þjóðarfuglinum, hinum rauða ofnfugli eða Rufous hornero.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×