Fótbolti

Tevez heiðraði Maradona með því að fagna alveg eins og Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez fagnar markinu sínu í gömlu  Boca Juniors treyjunni hans Diego Maradona.
Carlos Tevez fagnar markinu sínu í gömlu  Boca Juniors treyjunni hans Diego Maradona. Getty/Silvio Avila

Carlos Tevez fór sömu leið og Lionel Messi þegar hann fagnaði marki í fyrsta leik sínum eftir fráfall landa þeirra Diego Armando Maradona.

Lionel Messi og Carlos Tevez þekktu báðir Maradona vel og spiluðu undir stjórn hans hjá argentínska landsliðinu. Þeir voru líka báðir að spila fyrir félag sem Maradona spilaði með á sínum tíma.

Það vakti athygli þegar Lionel Messi fagnaði marki sínu í 4-0 sigri á Osasuna í spænsku deildinni að hann fór úr treyjunni og í ljós kom gömul treyja Maradona sem hann klæddist í leik með Newell's Old Boys.

Carlos Tevez gerði svipaða hluti þegar hann skoraði fyrir Boca Juniors á móti Internacional í Copa Libertadores. Tevez skoraði eina mark leiksisn á 64. mínútu.

Hann fagnaði með því að fara úr treyjunni eins og Messi og í ljós kom gömul Boca Juniors treyja sem Diego Armando Maradona hafði spilað í á sínum tíma.

Maradona spilaði í þessari treyju árið 1981 eða áður hann fór í víking í fyrsta sinn og spilaði með Barcelona á Spáni.

Tevez sagðist eftir leik hafa verið mjög ánægður með að geta glatt Maradona með þessu marki því hann væri viss um að hann væri að fylgjast með að ofan.

Diego Armando Maradona lést 25. nóvember síðastliðinn aðeins tæpum mánuði eftir að hann hélt upp á sextugsafmælið sitt.

Maradona stýrði argentínska landsliðinu á árinum 2008 til 2010 og þar á meðal á HM í Suður-Afríku sumarið 2010 þar sem bæði Lionel Messi (þá 22 ára) og Carlos Tevez (þá 26 ára) voru í hópnum.

Maradona lék með Boca Juniors í tvígang, fyrst 1981-82 og svo aftur 1995 til 1997 sem voru síðustu árin á ferli hans. Hann lék með Newell's Old Boys eða tímabilið sem hann snéri aftur heim til Argentínu frá Evrópu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×