Fótbolti

Shak­htar: Brasilíska ný­lendan í Úkraínu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vitão og Fernando fagna sigri Shakhtar Donetsk gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gær. Þeir eru tveir af 13 brasilískum leikmönnum í leikmannahóp Shakhtar.
Vitão og Fernando fagna sigri Shakhtar Donetsk gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gær. Þeir eru tveir af 13 brasilískum leikmönnum í leikmannahóp Shakhtar. Stanislav Vedmid/Getty Images

Úkraínska Shakhtar Donetsk vann 2-0 sigur á Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gær. Í byrjunarliði Shakhtar voru fjórir Brasilíumenn ásamt tveimur öðrum sem eru frá Brasiíu en eru nú með úkraínskt vegabréf.

Það er ef til vill óvanalegt að sjá svo marga leikmenn frá einu og sama landinu í Suður-Ameríku í sama liðinu í Austurhluta Evrópu en ekki þegar kemur að Shakhtar. Tenging liðsins við Brasilíu er gífurleg og nær þónokkur ár aftur í tímann.

Raunar er það svo að alls eru 13 leikmenn frá Brasilíu í leikmannahópi Shakhtar í dag. Fleiri leikmenn frá Brasilíu heldur en Úkraínu hafa byrjað leiki þeirra í Meistaradeildinni. Alls hefur félagið keypt 35 brasilíska leikmenn frá árinu 2002.

Þökk sé sigrinum gegn Real í gær á Shakhtar enn möguleika á að komast áfram í Meistaradeild Evrópu. Liðið er í 2. sæti í B-riðli en riðillinn er gjörsamlega galopinn. Shakhtar mætir Inter Milan á útivelli í síðustu umferð riðlakeppninnar á meðan Real Madrid fær Borussia Mönchengladbach í heimsókn.

Jack Lang, pistlahöfundur hjá The Athletic, birti nýverið ítarlega grein þar sem farið er yfir tenginguna milli Brasilíu og Shakhtar. Shakhtar hefur nú í nokkur ár fjárfest í leikmönnum frá Brasilíu sem hafa annað hvort orðið goðsagnir hjá félaginu eða verið seldir áfram til Evrópu á mun hærri upphæð en Shakhtar greiddi.

Fyrsti Brassinn til að ganga í raðir Shakhtar var Brandao, ungur framherji sem náði aldrei sömu hæðum og margir samlandar hans hafa gert síðan. Það var svo árið 2004 sem milljarðamæringurinn Rinat Akhmetov keypti félagið. Hann breytti mörgu hjá Shakhtar og réð hinn Rúmenann Mircea Lucescu til að stýra liðinu.

Akhmetov og Lucescu voru með sömu sýn á félagið. Þeir vildu gera það að stórveldi innan Úkraínu ásamt því að spila skemmtilegan fótbolta. Þeir vildu fá fólk á völlinn og vildu bjóða upp á skemmtun. Þar kom hugmyndin upp að fá Brasilíumenn til liðsins, þeir bjóða upp á skemmtun.

Lucescu togaði í nokkra spotta og allt í einu var Shakhtar komið með tengilið í Brasilíu. Þeir töldu sig geta sannfært unga og efnilega leikmenn frá Brasilíu um að Shakhtar væri rökrétt skref á þeirra ferli. Myndu spila í Meistaradeild Evrópu, fá vel borgað og ef þeir stæðu sig vel myndu stórlið innan Evrópu kaupa þá í sínar raðir.

Fernandinho í leik með Shakhtar Donetsk.Getty Images

Í því samhengi má nefna Elano og Fernandinho [sem fóru til Manchester City], Douglas Costa [sem fór til Bayern], Willian [sem fór til Chelsea] og svo Fred [sem fór til Manchester United]. Þettu eru fá af þeim nöfnum sem hafa farið þessa tilteknu leið inn í stærstu deildir Evrópu.

Til að gera langa sögu stutta þá má með sanni segja að verkefnið hafi gengið upp. Shakhtar var með frábæra æfingaðstöðu og gerðu allt sem þeir gátu til að Brössunum liði eins og heima hjá sér. Ekki nóg með að félagið hafi grætt fúlgur fjár með því að selja sína bestu leikmenn til stærstu liða Evrópu þá hefur liðið blómstra heimafyrir.

Félagið hefur unnið úrvalsdeildina í Úkraínu alls 12 sinnum síðan Akhmetov keypti félagið. Þá hefur það unnið bikarinn níu sinnum og Ofurbikarinn átta sinnum. Þá vann félagið Evrópukeppnina [UEFA Cup, forvera Evrópudeildarinnar] árið 2009.

Shakhtar er með fjölda tengiliða í Brasilíu í dag og þarf að segja nei við leikmenn nær daglega. Það vilja allir vera næsti Fernandinho, Fred eða Willian.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

Real Madrid í vandræðum

Spænski risinn, Real Madrid, er ekki bara í vandræðum í deildinni heima fyrir því ekki gengur heldur vel í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×