Erlent

Skilinn eftir af móðurinni með makríl­dós, hrökk­brauðs­sneið og skál af flögum

Atli Ísleifsson skrifar
Íbúðina er að finna í Haninge, suður af Stokkhólmi.
Íbúðina er að finna í Haninge, suður af Stokkhólmi. EPA

Sænski maðurinn, sem talinn er að hafi verið haldið í einangrun af móður sinni í 28 ár í íbúð suður af Stokkhólmi, var skilinn eftir í íbúðinni með dós af makríl, hrökkbrauði og skál af kartöfluflögum.

Þetta kemur fram í frétt Aftonbladet í morgun. Þar segir að ættingi mannsins hafi komið að manninum þar sem hann lá vannærður á gólfinu í íbúðinni sem full var af sorpi og úrgangi. Móðir hans hafi verið lögð inn á sjúkrahús fyrir nokkrum vikum og skilið soninn eftir.

Ættinginn, kona, sem kom að manninum hafði ekki séð hann í langan tíma og ákvað að kanna ástandið á honum þegar hún frétti að móðir hans dvaldi á sjúkrahúsi.

Konan segist hafa komið að ólæstri íbúðinni og að algert myrkur hafi verið þar. Eina birtan hafi verið úr gömlu sjónvarpi sem kveikt var á. Hún hafi þá séð manninn þar sem hann lá á gólfinu, með mikil sár á líkamanum, tannlaus og með litla talgetu.

„Þetta var eins og að ganga inn í hryllingsmynd,“ sagði konan í samtali við Expressen. Hún segir manninn þó hafa kannast við sig og hvíslað nafn hennar þegar hann kom auga á hana.

Í haldi lögreglu

Sænskir fjölmiðlar segja móðurina hafa skilið manninn eftir með eina skál af kartöfluflögum, hrökkbrauðssneið með osti og svo dós af makríl. Konan var lögð inn á sjúkrahús fyrir nokkrum vikum síðan.

Móðir mannsins er á áttræðisaldri og er nú í haldi lögreglu vegna gruns um frelsissviptingu og líkamsmeiðingar.

Unnið að kortlagningu á lífi mannsins

Emma Olsson, saksóknari í málinu, segir að nú verði unnið að kortlagningu á lífi mannsins. Hún segir að maðurinn hafi gengist undir aðgerð á sjúkrahúsi en að hún hafi ekki nánari upplýsingar um líðan hans. Lögregla hyggst þó gera tilraun til að yfirheyra hann í dag.

Sænskir fjölmiðlar segja að manninum hafi verið haldið í íbúðinni af móður sinni síðan hann var tólf ára gamall eða í 28 ár.

Uppfært 2.12.2020:

Konan er ekki lengur grunuð um saknæmt athæfi. Ekkert þykir benda til þess að manninum hafi verið haldið föngnum í íbúðinni. Sjá nánar hér.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.