Innlent

„Þetta lítur bara ekki vel út, því miður“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist hafa áhyggjur af stöðu mála.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist hafa áhyggjur af stöðu mála. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist hafa miklar áhyggjur af stöðu kórónuveirufaraldursins hér á landi í dag. Hún reiknar með að helgin fari í að ákveða hvort einhverjar breytingar verði gerðar á sóttvarnaraðgerðum þann 2. desember.

Tuttugu greindust í gær og voru ellefu utan sóttkvíar. Ellefu greindust innanlands í fyrradag og voru átta af þeim ekki í sóttkví. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist hafa miklar áhyggjur af stöðu mála og Svandís deilir þeim áhyggjum.

„Þetta lítur bara ekki vel út, því miður. Við sáum tölurnar í gær og sáum vísbendingar um það að smitum væri aftur að fjölga og vildum aðeins hinkra með ákvarðanir um næstu skref. Tölurnar í dag gefa til kynna að það sé vöxtur í faraldrinum, því miður,“ segir Svandís í viðtali við fréttastofu.

Núverandi sóttvarnaaðgerðir gilda til og með 1. desember, næsta þriðjudag. Vonast hafði verið til þess að þá yrði hægt að slaka eitthvað á samkomutakmörkunum en hvað verður nú í þeim efnum er alls óvíst ef marka má orð sóttvarnalæknis í viðtali við Vísi fyrr í dag.

Meta stöðuna eftir því hvernig helgin fer

Svandís segir ljóst að meta þurfi stöðuna eftir því hvernig helgin þróist.

„Það er líka jafn ljóst að við verðum að meta stöðuna núna og um helgina til þess að leggja mat á það hvort einhverjar breytingar verði gerðar 2. desember,“ segir Svandís.

Margir höfðu bundið vonir við að einhverjar tilslakanir yrðu gerðar á miðvikudag en Svandís segist ekkert geta sagt til um hvaða ákvörðun verði tekin í þeim efnum.

„Það get ég auðvitað ekkert sagt um og við höfum hingað til reynt að hafa þann takt í okkar ákvörðunum að þær standi í tvær vikur í senn. En við þurfum að minnsta kosti að fá helgina til þess að meta hvert faraldurinn er að fara. Ég hef satt að segja miklar áhyggjur af því hvernig þetta lítur út akkúrat núna,“ segir Svandís.

Ekki umhverfið til að slaka á takmörkunum

Hún segir að allar ákvarðanir verði byggðar á því hvert faraldurinn stefni.

„Við verðum eiginlega bara að byggja okkar ákvarðanir á því hvert faraldurinn er að fara. Aukning á milli daga upp á 20 smit er bara of mikið. Það er ekki umhverfið sem við þurfum til að slaka á takmörkunum. Ég held að það átti sig allir á því.“

Hún hvetur landsmenn til að huga að eigin sóttvörnum.

„Núna ríður á að við snúum bökum saman. Við kunnum þessar reglur, þær eru einfaldar. Snúast um það að halda fjarlægð, þvo sér um hendur og virða þessar reglur sem eru að koma út. Ef við gerum það þá náum við tökum eins og við höfum gert áður.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×