Fótbolti

Ótrúlegt sjónarspil fyrir utan heimavöll Napoli til minningar um Maradona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Diego Maradona er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Napoli sem minntust hans með því að kveikja á blysum fyrir leik liðsins í gær.
Diego Maradona er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Napoli sem minntust hans með því að kveikja á blysum fyrir leik liðsins í gær. getty/Marco Cantile

Diego Maradona er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Napoli sem minntust hans með því að kveikja á blysum fyrir leik liðsins í gær. Þetta var fyrsti leikur Napoli eftir að Maradona lést.

Stuðningsmenn Napoli röðuðu sér upp hringinn í kringum heimavöll liðsins, San Paolo, héldu á rauðum, logandi blysum og mynduðu eins konar eldvegg. Þetta magnaða sjónarspil má sjá í myndböndunum hér fyrir neðan.

Klippa: Eldveggur fyrir utan heimavöll Napoli

Þegar leikmenn Napoli stilltu sér upp fyrir einnar mínútu þögnina fyrir leikinn voru þeir allir í treyju númer 10 með nafni Maradona á bakinu.

Klippa: Klæddust treyju Maradona fyrir leik

Napoli hefur gefið út að heimavöllur liðsins verði nefndur í höfuðið á Maradona sem leiddi Napoli til tveggja ítalskra meistaratitla (1987 og 1990) auk sigurs í Evrópukeppni félagsliða 1989.

Napoli vann leikinn gegn Rijeka í gær með tveimur mörkum gegn engu. Matteo Politano og Hirving Lozano voru á skotskónum. Napoli er á toppi F-riðils Evrópudeildarinnar með níu stig, tveimur stigum meira en Real Sociedad og AZ Alkmaar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×