Innlent

Dæmdur fyrir fimm milljóna króna þjófnaðinn í Gulli og silfri

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn braust inn í verslun Gulls og silfurs 14. september síðastliðinn. Braut hann rúðu á hurð í anddyri verslunarinnar og stal skartgripum að verðmæti 5,2 milljónum króna.
Maðurinn braust inn í verslun Gulls og silfurs 14. september síðastliðinn. Braut hann rúðu á hurð í anddyri verslunarinnar og stal skartgripum að verðmæti 5,2 milljónum króna. vísir

Rúmenskur karlmaður hefur reynst nokkuð stórtækur í þjófnaði undanfarna mánuði. Hann hefur verið dæmdur í tólf mánaða fangelsi en hann lét meðal annars greipar sópa í Gull og silfri á Laugavegi í september og hafði á brott skartgripi að verðmæti fimm milljónir króna.

Maðurinn er jafnframt dæmdur fyrir líkamsárás eftir að hafa veist með ofbeldi að konu, starfsmanni verslunar Bónuss á Akranesi í ágúst, með því að hrækja í andlit hennar þegar hún hafði af honum afskipti vegna þjófnaðarbrots.

Í dómnum kemur fram að ákærði hafi þann 14. september síðastliðinn, brotist inn í verslun Gulls og silfurs á Laugavegi með því að brjóta rúðu á hurð í anddyri verslunarinnar og þaðan stolið þrjátíu armböndum, ellefu hringjum og þremur brjóstnælum, samtals að verðmæti rúmlega 5,2 milljónum króna. 

Karlmaðurinn braut margfalt öryggisgler á inngangi verslunarinnar, skreið inn um gat, lét greipar sópa áður en hann flúði eins og sjá má í myndbandinu.

Var dýrasta gullarmbandið, sem var með grænum steinum og hvítum demöntum, metið á 490 þúsund krónur. Maðurinn var handtekinn þegar hann var á flótta frá vettvangi.

Vísir ræddi við Kristjönu Ólafsdóttur, annars eiganda Gulls og silfurs, morguninn eftir innbrotið. Hún lýsti því hvernig þjófurinn hefði flúið í átt að lögreglustöðinni og hlaupið í fangið á lögreglumönnum.

Stal tölvum og sígarettum

Maðurinn var jafnframt dæmdur fyrir að hafa í október síðastliðinn brotist inn í verslun Elko á Granda, í félagi við aðra óþekkta menn, og stolið þaðan spjaldtölvum, fartölvum, snjallúrum og fleira að verðmæti 2,8 milljónum króna.

Í ákæru segir einnig frá því að maðurinn hafi í ágúst síðastliðinn farið inn í verslun Orkunnar á Laugavegi og stolið þaðan sígarettum að verðmæti 300 þúsund krónum og peningaskúffu sem innihélt 50 þúsund krónum. 

Tveimur dögum síðar fór hann svo inn í verslun Miðausturlandamarkaðarins í Lóuhólum og stolið þaðan sígarettum að verðmæti 600 þúsund krónum.

Skýlaus játning

Maðurinn játaði skýlaust brot, en í dómnum kemur fram að hann hafi ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé.

„Brot ákærða eru stórfelld og varða verulegum fjárhæðum. Til hins er að líta að ákærði hefur játað sök greiðlega. Með hliðsjón af þessu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 12 mánuði, sem í ljósi brotanna er ekki unnt að skilorðsbinda. Frá refsingu dregst gæsluvarðhald,“ segir í dómnum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.