Innlent

Braust inn í skart­gripa­verslun en var gómaður á hlaupum

Samúel Karl Ólason skrifar
Alls voru 52 mál skráð hjá lögreglu á frá fimm í gær til fimm í morgun.. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Alls voru 52 mál skráð hjá lögreglu á frá fimm í gær til fimm í morgun.. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í nótt tilkynning um yfirstandandi innbrot í skartgripaverslun á Laugavegi. Vitni að innbrotinu gat gefið lögregluþjónum góða lýsingu á innbrotsþjófnum og var hann gómaður á hlaupum þar nærri. Hann var með poka fullan af skartgripum sem metnir eru á nokkrar milljónir króna.

Alls voru 52 mál skráð hjá lögreglu á frá fimm í gær til fimm í morgun.

Í einu þeirra barst tilkynning frá starfsfólki kaffihúss í miðbænum. Þar hafði æst kona gengið inn á meðan verið var að loka staðnum, upp úr klukkan sex, og krafðist hún þjónustu. Þegar henni var neitað greip hún veitingar ófrjálsri hendi og neytti þeirra fyrir framan starfsfólki, samkvæmt dagbók lögreglu. Því næst rauk hún á brott og bar leit að henni ekki árangur.

Maður óskaði eftir aðstoð lögreglu í gærkvöldi vegna hótana sem hann varð fyrir og tilraunar til fjárkúgunar. Tveir ungir menn höfðu sakað hann um að reyna að setja sig í samband við stúlku undir lögaldri og heimtuðu af honum peninga.

Þá óskuðu starfsmenn matvöruverslunar í austurbænum eftir aðstoð lögreglu vegna tveggja manna sem hótuðu fólki ofbeldi. Þeir voru farnir af vettvangi þegar lögregluþjóna bar að garði og fundust ekki.

Í gær var svo tilkynnt um lausan eld í timburhúsi í Garðabæ og var einn talinn lokaður inni. Betur fór þó á en horfðist og hafði eldur komið upp í potti. Búið var að slökkva eldinn þegar viðbragðsaðila bar að garði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×