Fótbolti

Lars Lagerbäck búinn að koma Noregi upp fyrir Ísland í fyrsta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerback léttur á blaðamannafundi.
Lars Lagerback léttur á blaðamannafundi. EPA-EFE/Manuel Bruque

Ísland fellur niður um sjö sæti á nýjasta FIFA listanum sem var gefinn út í morgun.

Norska karlalandsliðið í knattspyrnu er komið fyrir ofan íslenska landsliðið á Styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins.

Nýr FIFA-listi var gefinn út morgun og þar er íslenska landsliðið í 46. sæti eða sjö sætum neðar en á síðasta lista.

Norðmenn lækka sig líka en aðeins um eitt sæti og þeir eru því komnir upp fyrir Ísland og í 44. sæti. Leikurinn sem var dæmdur tapaður hafði þar örugglega talsverð áhrif því annars hefðu þeir líklega farið upp í 41. sætið.

Þetta er í fyrsta sinn sem norska landsliðið er fyrir ofan það íslenska síðan að Lars Lagerbäck gerðist landsliðsþjálfari Norðmanna.

Lars Lagerbäck tók við norska landsliðinu í febrúar 2017 og stýrði liðinu í fyrsta sinn í lok mars saman ár. Þá var norska landsliðið í 81. sæti FIFA-listans en íslenska landsliðið í 20. sæti eða 61 sæti ofar.

Nú næstum því fjórum árum seinna er Lars Lagerbäck og lærisveinar hans í norska landsliðinu búnir að vinna upp þennan rúmlega sextíu sæta mun.

Lars Lagerbäck tók við íslenska landsliðinu í árslok 2011. Liðið fór neðst í 131. sæti á FIFA-listanum sumarið 2012 en hann skildi við liðið í 22. sæti eftir EM í Frakklandi sumarið 2016.

Lars Lagerbäck og FIFA-listinn

  • Ísland
  • Tók við í október 2011: 108. sæti
  • Hætti í júlí 2016: 22. sæti
  • Breyting: Upp um 86 sæti
  • Noregur
  • Tók við í febrúar 2017: 81. sæti
  • Staðan í dag: 44. sæti
  • Breyting: Upp um 37 sætiFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.