Innlent

Keyra í klukkustund til að kaupa í matinn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps.
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps. Egill Aðalsteinsson

Ímyndið ykkur að engin verslun væri í Reykjavík og að borgarbúar þyrftu að keyra yfir fjallveg austur á Selfoss til að kaupa nauðsynjavörur í matinn. Þetta er sá veruleiki sem íbúar Reykhólasveitar búa við eftir að einu búðinni þar var lokað, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2.

260 íbúar Reykhólasveitar hafa ekki getað verslað í eigin heimabyggð eftir að Hólabúð og sambyggðum veitingastað var lokað í byrjun október.

Hólabúð og veitingastaðurinn voru í rauða húsinu við heimreiðina að Reykhólum.Egill Aðalsteinsson

„Þetta var áfall,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps.

Fyrir íbúana í þéttbýlinu á Reykhólum þýddi þetta að það var ekki lengur hægt að skreppa út í búð að kaupa í matinn. Næsta búð er nefnilega á Hólmavík en þangað er 50-60 mínútna akstur yfir Þröskulda.

Sveitarstjórinn segir íbúana einnig sækja í Búðardal og jafnvel alla leið í Borgarnes til að gera innkaupin en í öllum tilvikum þarf að fara yfir fjallveg.

„Þetta er ekki þægilegt ástand og það fer náttúrlega versnandi. Við erum búin að búa við það að það hafi verið gott veður hingað til. Það er ekki búin að vera hálka eða annað.

En auðvitað þegar fara að koma snjór og hálka þá fara aðstæður að breytast og þá verður þetta mikið erfiðara.“

Frá Reykhólum. Þaðan eru 58 kílómetrar til Hólmavíkur um Þröskulda og 75 kílómetrar í Búðardal um Svínadal.Egill Aðalsteinsson

En ekki er öll nótt úti enn. Reykhólabúar gætu brátt tekið gleði sína á ný. Sveitarstjórinn segir áhugasama aðila hafa gefið sig fram um að reka verslun.

„Þannig að ég sé bara fram á bjarta tíma. Þetta eru ekki endalokin. Það opnast dyr þegar aðrar lokast.“

-Þannig að það verður kannski hægt að kaupa jólamatinn á Reykhólum?

„Kannski ekki jólamatinn. En væntanlega mjög fljótlega eftir áramót verður hægt að kaupa í matinn á Reykhólum,“ segir Ingibjörg Birna.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Einu matvöruverslun Reykhólasveitar lokað

Eigendur Hólabúðar á Reykhólum hafa tilkynnt að versluninni verði lokað um næstu mánaðamót. Jafnframt verður rekstri veitingastaðarins 380 Restaurant hætt. Fyrir íbúa Reykhóla þýðir þetta að 50 til 60 mínútna akstur verður í næstu búð til að kaupa í matinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.