Innlent

Skýrist í dag hvort um hópsmit sé að ræða

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skólahald í tveimur skólum á Egilsstöðum fellur niður í dag vegna smitsins.
Skólahald í tveimur skólum á Egilsstöðum fellur niður í dag vegna smitsins. Wikimedia Commons/Debivort

Smitrakningu miðar vel á Austurlandi þar sem kórónuveirusmit greindist í gær. Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum segir að væntanlega muni skýrast seinna í dag hvort um hópsmit sé að ræða.

Tilkynnt var í gær að skólahald falli niður í Egilsstaðaskóla og Fellaskóla, sem báðir eru á Egilsstöðum, í dag eftir að einn greindist með veiruna á svæðinu. Um öryggisráðstöfun væri að ræða þar sem smitrakningu væri ekki lokið.

Ekki lá fyrir í gær hversu margir þurfi í sóttkví vegna smitsins. Rögnvaldur sagði á sérstökum upplýsingafundi almannavarna fyrir hádegi að smitrakning stæði enn yfir.

„Smitrakning gengur bara vel. Það er enn aðeins of snemmt að segja til um umfangið og hvort það sé hópsmit. En það skýrist væntanlega seinna í dag,“ sagði Rögnvaldur.

Fram kom í tilkynningu lögreglu í gær að sá smitaði væri í einangrun og með væg einkenni. Enginn hefur verið með virkt smit á Austurlandi síðan 9. nóvember síðastliðinn, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×