Innlent

Aðalmeðferð hafin í manndrápsmálinu í Sandgerði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þinghaldið í málinu sem flutt er við Héraðsdóm Reykjaness er lokað.
Þinghaldið í málinu sem flutt er við Héraðsdóm Reykjaness er lokað. Vísir/Vilhelm

Aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara gegn karlmanni á sextugsaldri sem grunaður er um að hafa banað eiginkonu sinni í Sandgerði í lok mars hófst við Héraðsdóm Reykjaness í morgun. Kristinn Halldórsson héraðsdómari ákvað að þinghald í málinu skyldi vera lokað og geta fjölmiðlar því ekki fjallað um það sem fram kemur í dómsal í dag.

Maðurinn sem er ákærður fyrir manndráp er grunaður um að hafa banað eiginkonu sinni á heimili þeirra með því að hafa þrengt að hálsi hennar með þeim afleiðingum að hún lést af völdum köfnunar. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan í apríl en látinn laus á dögunum í ljósi nýrra gagna.

Í kröfu sóknaraðila til héraðsdóms um áframhaldandi gæsluvarðhald sagði að réttarkrufning hafi leitt í ljós að banamein hennar hafi verið kyrking og að ekkert liggi fyrir um að einhver annar gæti átt hlut að máli. Héraðsdómur féllst á áframhaldandi varðhald.

Ný gögn í málinu

Í nýrri matsgerð dómkvaddra matsmanna sem lögð var fyrir þann 30. september síðastliðinn sagði hins vegar að mögulegt væri að konan hafi látist af völdum „blöndunareitrunar af klórdíasepoxíði, lífefna þess og áfengis,“ eins og það er orðað.

Jafnframt að ekki sé unnt að staðfesta að kraftbeiting gegn hálsi hafi átt sér stað rétt fyrir andlátið, heldur gæti hún hafa átt sér stað allt að þremur dögum fyrir það.

Landsréttardómarar komust því að þeirri niðurstöðu að í ljósi þessara nýju gagna væri skilyrði til gæsluvarðhalds ekki lengur fyrir hendi. Varakrafa um að maðurinn skyldi sæta farbanni var heldur ekki tekin til greina.

Reikna má með því að dómur verði kveðinn upp í málinu fyrir jól en almennt er miðað við fjögurra vikna tímabil frá lokum aðalmeðferðar til dómsuppkvaðningar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×