Fótbolti

Holland og Tyrkland með sigra í Þjóðadeildinni

Ísak Hallmundarson skrifar
Hollendingar að fagna marki í kvöld.
Hollendingar að fagna marki í kvöld. getty/John Thys

Holland vann afar sannfærandi 3-1 sigur á Bosníu í riðli 1 í A-deild Þjóðadeildarinnar. Georgio Wijnaldum skoraði tvö mörk á fyrsta korterinu og Memphis Depay kom Hollandi í 3-0 í upphafi seinni hálfleiks. Smail Prevljak minnkaði muninn fyrir Bosníu á 63. mínútu en fleiri mörk voru ekki skoruð, öruggur sigur Hollendinga staðreynd.

Hollendingar eru nú á toppnum í riðlinum, einu stigi á undan Póllandi og tveimur stigum á undan Ítalíu, en þau lið mætast í kvöld.

Í B-deild Þjóðadeildarinnar unnu Tyrkir 3-2 sigur á Rússum. Denis Cheryshev kom Rússlandi yfir á 11. mínútu leiksins en á 24. mínútu fékk Andrey Semenov rauða spjaldið og Rússar spiluðu manni færri það sem eftir lifði leiks.

Tyrkir voru fljótir að nýta sér liðsmuninn, Kenan Karaman jafnaði metin á 26. mínútu og Cengiz Under kom Tyrklandi yfir sex mínútum síðar. Cenk Tosun bætti við þriðja marki Tyrkja úr vítaspyrnu í upphafi seinni hálfleiks áður en Daler Kuzyaev minnkaði muninn fyrir Rússa. Lokatölur 3-2 og með þessum úrslitum galopnast baráttan um efsta sætið í riðlinum. Rússland er efst með átta stig, Ungverjar í öðru sæti með sjö stig og Tyrkland í þriðja sæti með sex stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.