Fótbolti

„Töpuðum út af því að við erum ekki í nógu góðu formi“

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið var rúmum fimm mínútum frá því að komast á EM. Hér er Birkir Bjarnason á ferðinni en Endre Botka til varnar.
Íslenska landsliðið var rúmum fimm mínútum frá því að komast á EM. Hér er Birkir Bjarnason á ferðinni en Endre Botka til varnar. EPA/Tibor Illyes

„Við töpum út af því að við erum ekki í nógu góðu formi. Þetta er eitthvað sem á ekki að eiga sér stað á hæsta stigi í fótbolta,“ segir Bjarni Guðjónsson, fyrrverandi landsliðsmaður, um tap Íslands gegn Ungverjalandi í gær.

Ungverjaland fer á EM í stað Íslands eftir að hafa skorað tvö mörk á lokamínútunum í Búdapest í gær, og tryggt sér þannig 2-1 sigur. Kjartan Atli Kjartansson gerði leikinn upp með Bjarna og Atla Viðari Björnssyni á Stöð 2 Sport í gærkvöld þar sem menn leituðu svara við því hvað miður fór.

„Þarna er Birkir Bjarnason gjörsamlega punkteraður inni á miðjunni,“ sagði Dalvíkingurinn Atli Viðar, þegar sérfræðingarnir skoruðu sigurmark Ungverja, en innslagið má sjá hér að neðan.

„Þarna erum við komnir með nýja miðju, Aron Einar og Rúnar farnir út, og ef maður leyfir sér að vera pínulítið dramatískur svona eftir leik þá held ég að við hefðum ekki fengið á okkur svona mark ef að Aron Einar hefði enn verið inni á vellinum. Eða einhver sem hefði verið búinn að spila í 90 mínútur,“ sagði Atli Viðar.

Íslensku strákarnir virkuðu ansi þreyttir þegar Ungverjar tryggðu sér sigurinn í lokin.Getty/Laszlo Szirtesi

Kjartan benti á að Birkir Bjarnason hefði tekið um kálfann eftir sigurmarkið:

„Hann var bara bensínlaus. Við þessu var kannski búist. Hann spilar bara landsleiki. Það er því kannski ekki skrýtið að hann sé þreyttur,“ sagði Bjarni, og lét svo dæluna ganga um leikform íslenska liðsins:

Eigum að gera þá kröfu að þessir strákar geti spilað í níutíu mínútur

„Mér finnst þetta umræða sem er bara á vitlausum stað. Við erum að tala um íslenska landsliðið í úrslitaleik um að komast í lokakeppni EM. Og það er ekki eins og að þetta sé þriðji leikurinn á sjö dögum, þar sem liðið hefur spilað þétt. Þeir eru bara að koma inn í verkefnið núna. Það er ekki ásættanlegt að það sé verið að tala um að leikmenn séu þreyttir eftir 80 mínútna leik. Það er staða sem mér finnst að íslenska landsliðið eigi ekki að vera í. Við eigum að gera þá kröfu að þessir strákar sem eru valdir geti spilað 90 mínútur af fótbolta, án þess að þurfa að fara af velli. Ekki voru þeir að spila í aðdraganda leiksins, en þeir eru allir sammála um að þeir hafi verið þreyttir og orðnir pínu þungir.“

Atli Viðar spurði Bjarna þá hvað væri til ráða. Ætti bara að velja leikmenn sem væru að spila með sínum félagsliðum?

„Mér hefur fundist það vera eðlilegt, en svo horfir maður á þennan leik og sér hvernig Kári spilar. Frábær í leiknum. Aron er frábær meðan hann er inni á. Birkir var í fínu lagi. En svo eru þetta 90 mínútur og það eru þarna 2-3 mínútur í lokin þar sem menn eru sprungnir, og við töpum út af því. Við töpum út af því að við erum ekki í nógu góðu formi. Þetta er eitthvað sem á ekki að eiga sér stað á hæsta stigi í fótbolta.“

Klippa: Bjarni Guðjóns um ástand landsliðsmannanna

Tengdar fréttir

Hetjan gegn Íslandi varð Ungverji í fyrra

Loic Nego kom Ungverjalandi til bjargar í gærkvöld með jöfnunarmarki undir lokin gegn Íslandi. Ef leikurinn hefði farið fram í mars, líkt og til stóð, hefði Nego ekki mátt spila.

Hannes: Aldrei verið jafn sorg­mæddur eftir tap

„Ég held að ég hafi aldrei verið jafn sorgmæddur eftir tap á fótboltaleik,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, eftir tapið grátlega í Ungverjalandi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×