Erlent

Heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna undir gífurlegu álagi

Samúel Karl Ólason skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn í Kaliforníu flytja lík manneskju sem dó vegna Covid-19.
Heilbrigðisstarfsmenn í Kaliforníu flytja lík manneskju sem dó vegna Covid-19. AP/Jae C. Hong

Alls 145 þúsund manns greindust smitaðir af Covid-19 í Bandaríkjunum í gær. Sú tala hefur aldrei verið hærri en fyrir viku síðan greindust 104 þúsund smitaðir. Ástandið þykir mjög alvarlegt víða. Í Texas hafa rúmlega milljón manns greinst smitaðir og Kalifornía nálgast þann fjölda einnig.

1.408 dóu í gær. Í ríkjum eins og Tennessee, Alabama og Minnesota hefur fjöldi látinna aldrei verioð hærri.

AP fréttaveitan segir að smituðum fari fjölgandi í 49 ríkjum Bandaríkjanna og dauðsföllum fjölgi í 39.

Í heildina hafa tæplega 10,5 milljónir manna smitast og 242 þúsund dáið vegna Covid-19 í Bandaríkjunum.

Álag á sjúkrahúsum hefur víða verið að aukast til muna og hafa sóttvarnaraðgerðir verið hertar í borgum eins og New York, Philadelphia, San Diego og víðar.

Í New York hefur samkomutakmörkunum verið komið á og mega ekki fleiri en 10 manns koma saman í einu. Þá verður öldurhúsum, veitingastöðum og líkamsræktarstöðvum gert að loka ekki síðar en klukkan tíu á kvöldin.

Í Ohio hefur einnig verið gripið til samkomutakmarkana og hefur ríkisstjórinn MIke DeWine einnig sett á grímuskyldu og heitið því að tryggja að henni verði framfylgt. Heilbrigðiskerfi Ohio er að hruni komið og DeWine segir að ekki megi gefast upp fyrir sjúkdómnum.

Svipaða sögu er að segja frá Iowa þar sem útbreiðsla veirunnar hefur verið hröð að undanförnu.

Í frétt Washington Post segir talsmaður sambands sjúkrahúsa í Missouri að heilbrigðisstarfsfólk þurfi mögulega að fara að neita fólki læknaþjónustu. Enn séu til næg rúm til að leggja fólk inn en ekki sé starfsfólk til að annast þau.

Alls voru rúmlega 64 þúsund lagðir inn á sjúkrahús í Bandaríkjunum í gær og þar af voru nærri því þrjú þúsund settir í öndunarvél.

Hópur heilbrigðisstarfsmanna í Illinois sendi nýverið opið bréf til ríkisstjórans J.B. Pritzker og Lori Lightfoot, borgarstjóra Chicago, þar sem hópurinn varaði við því að öll gjörgæslurúm ríkisins muni fyllast á næstu vikum.

Svipaðar sögur berast víða. Læknar í Oklahoma segir að þar sé heilbrigðiskerfið að springja vegna álags. Læknasamtök Bandaríkjanna hafa kallað eftir því að fólk beri andlitsgrímur, stundi félagsforðun og þvoi hendur sínar reglulega.

Einhverjir læknar sem ræddu við Washington Post segjast sérstaklega óttast það að veiran nái aftur til dvalarheimila Bandaríkjanna, eins og gerðist í vor. Það gæti valdið fjölmörgum dauðsföllum.


Tengdar fréttir

Fleiri en 50.000 nú látnir í Bretlandi

Tala látinna í kórónuveirufaraldrinum í Bretlandi fór yfir 50.000 manns í dag. Bretland varð þannig fyrsta Evrópulandið sem nær þeim neikvæða áfanga. Hundruð manns deyja nú af völdum veirunnar þar á degi hverjum.

Metfjöldi innlagna vegna Covid-19 í Bandaríkjunum

Spítalainnlagnir af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum náðu hæstu hæðum í gær og fjöldi nýsmitaðra á fyrstu tíu dögum nóvembermánaðar var rúm ein milljón manna. Faraldurinn þar í landi sýnir því engin merki þess að vera í rénun, að því er fram kemur í umfjöllun AP fréttaveitunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×