Fótbolti

Kemur í ljós á morgun hvar leikur Eng­lands og Ís­lands fer fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gareth Southgate þakkar Guðlaugi Victori Pálssyni fyrir leikinn á Laugardalsvelli fyrr í sumar.
Gareth Southgate þakkar Guðlaugi Victori Pálssyni fyrir leikinn á Laugardalsvelli fyrr í sumar. VÍSIR/GETTY

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands staðfesti í dag að það komi í ljós á morgun hvar leikur Englands og Íslands fari fram. Er Þýskaland nefnt sem líklegasta niðurstaðan.

Þetta staðfestu ensku blaðamennirnir John Cross og Henry Winter á Twitter-síðum sínum í kvöld en Gareth Southgate ræddi við blaðamenn í dag.

Þar sagði Southgate að viðræður enska knattspyrnusambandsins og ríkisstjórnar Bretlands myndu halda áfram á morgun. Þar ætti að koma í ljós hvort hægt yrði að spila á Wembley, þjóðarleikvangi Englendinga. 

Ef það er ekki hægt er talið líklegast að leikurinn verði færður til Þýskalands.

Leikur Englands og Íslands í Þjóðadeildinni er settur á miðvikudaginn í næstu viku, þann 18. nóvember. Verður það síðasti leikur Íslands í þriggja leikja hrinu sem hefst með stórleiknum gegn Ungverjalandi á morgun. 

Á sunnudag mætir íslenska liðið svo danska landsliðinu á Parken og þaðan fer það til Englands, eða Þýskaland, og mætir enska landsliðinu.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×