Erlent

Metfjöldi innlagna vegna Covid-19 í Bandaríkjunum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Rúmlega 62 þúsund manns liggja nú inni á bandarískum sjúkrahúsum vegna Covid-19
Rúmlega 62 þúsund manns liggja nú inni á bandarískum sjúkrahúsum vegna Covid-19 Alex Edelman/Getty Images

Spítalainnlagnir af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum náðu hæstu hæðum í gær og fjöldi nýsmitaðra á fyrstu tíu dögum nóvembermánaðar var rúm ein milljón manna. Faraldurinn þar í landi sýnir því engin merki þess að vera í rénun, að því er fram kemur í umfjöllun AP fréttaveitunnar.

Þar segir að sú bylgja sem nú gangi yfir virðist vera enn stærri en þær sem komu í vor og í sumar en þó eru vísbendingar um að það gangi betur að eiga við veiruna í þessari bylgju. Ný smit í landinu hafa síðustu daga verið vel yfir hundrað þúsund á degi hverjum og nú liggja tæplega 62 þúsund manns á spítala með Covid-19. Í fjölda ríkja féllu met í gær í nýsmitum, í Illinois greindust rúmlega 12.600 smit, í Texas voru þau 10.800 og rúmlega 7 þúsund í Wisconsin.

Ýmis jákvæð merki á lofti

Þó óttast menn að dauðsföll af völdum veirunnar séu á uppleið að nýju þótt þau hafi ekki náð toppnum sem í apríl, þegar um 2200 manns létu lífið á degi hverjum.

Læknum virðist þó ganga betur að meðhöndla fólk með veiruna nú en áður, það er að segja að þeir sem leggja þarf inn á gjörgæslu nú virðast eiga betri möguleika á að ná sér. Þá hafa jákvæðar fregnir af þróun bóluefnis einnig vakið mönnum von í brjósti um að hægt verði að ná tökum á faraldrinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×