Fótbolti

Alfreð flottur í þýskunni og gaf líka landsliðsþjálfaranum brúðu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason afhendir hér Erik Hamrén brúðuna sem gjöf frá FC Augsburg.
Alfreð Finnbogason afhendir hér Erik Hamrén brúðuna sem gjöf frá FC Augsburg. Skjámynd/Youtube/FCA TV

Alfreð Finnbogason er heldur betur á heimavelli þegar íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu undirbýr sig fyrir leikinn mikilvæga á móti Ungverjum á fimmtudagskvöldið.

Alfreð er leikmaður þýska liðsins Augsburg og íslenski hópurinn fékk að setja upp æfingabúðir sínar fyrir Ungverjaleikinn hjá Augsburg.

Augsburg bauð íslenska landsliðið velkomið í stuttu myndbandi á Twitter-síðu sinni en þar mátti sjá myndbrot frá æfingu íslenska liðsins í þokunni sem og viðtal við Alfreð Finnbogason.

Alfreð Finnbogason hefur verið duglegur að læra tungumálið þar sem hann hefur spilað á ferlinum en hann hefur spilað í Belgíu, í Svíþjóð, í Hollandi, á Spáni, í Grikklandi og nú í Þýskalandi undanfarin fjögur ár.

Alfreð er orðinn flottur í þýskunni á þessum fjórum árum sem hann sýndi með því að tala hana eins og innfæddur í viðtalinu við sjónvarpsstöð FC Augsburg, FCA TV.

Í fréttinni á FCA TV má Alfreð meðal annars færa landsliðsþjálfaranum strengjabrúðu af gjöf fyrir hönd félagsins síns, FC Augsburg.

„Það hefur aldrei verið svona stutt fyrir mig að fara til móts við íslenska landsliðið,“ grínaðist Alfreð meðal annars með í viðtalinu.

„Ég er ánægður með að við getum undirbúið liðið hér í Augsburg. Hér eru góðar aðstæður og við getum stillt okkar strengi,“ sagði Alfreð.

„Við viljum komast á þriðja stórmótið í röð og það yrði ótrúlega falleg saga fyrir okkur,“ sagði Alfreð eins og sjá má hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.