Innlent

Telja ó­hætt að hefja val­kvæðar að­gerðir á ný

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Páll Matthíasson er forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson er forstjóri Landspítala. Vísir/Vilhelm

Forstjóri Landspítala og formaður farsóttarnefndar spítalans telja nú óhætt að hefja valkvæðar aðgerðir á ný eftir að þeim var frestað með auglýsingu heilbrigðisráðherra í október. Sú auglýsing verður felld úr gildi frá og með morgundeginum, 11. nóvember, að því er fram kemur í tilkynningu á vef landlæknisembættisins.

Landspítali settur á neyðarstig í kjölfar hópsýkingar kórónuveirunnar á Landakoti í október. Í kjölfar þess lagði landlæknir til að valkvæðum aðgerðum á spítalanum sem geta beðið yrði frestað og staðfesti heilbrigðisráðherra fyrirmæli þar um með auglýsingu þann 26. október síðastliðinn.

Í tilkynningu á vef landlæknisembættisins segir að staðan á Landspítala sé enn alvarleg en heldur hafi hægst um. Í ljósi þess hafi nú borist erindi frá forstjóra og formanni farsóttarnefndar, þar sem þeir telji óhætt að hefja valaðgerðir á ný – en með vissum takmörkunum er varðar stærri aðgerðir.

Landlæknir hafi því lagt til við heilbrigðisráðherra að fyrri auglýsing verði felld úr gildi. Sú ákvörðun muni taka gildi á morgun, miðvikudaginn 11. nóvember 2020.

„Landlæknir biðlar þó til stofnana og sjálfstætt starfandi lækna að bíða heldur lengur, í eina til tvær vikur, með stærri aðgerðir þar sem áhætta á blæðingum eða öðrum alvarlegum fylgikvillum er mest. Þar sem um vafatilvik er að ræða treystir landlæknir á faglegt og yfirvegað mat hlutaðeigandi sérfræðilæknis í hverju tilviki fyrir sig. Landlæknir hvetur að öðru leiti lækna til að hefja að nýju valkvæðar aðgerðir samkvæmt stöðu og getu hverrar stofnunar eða einingar,“ segir í tilkynningu.


Tengdar fréttir

Valkvæðum skurðagerðum frestað

Heilbrigðisráðherra hefur staðfest fyrirmæli landlæknis um frestun valkvæðra skurðaðgerða og annarra ífarandi aðgerða.

Búa sig undir tvær erfiðar vikur

79 smit hafa nú verið rakin til hópsýkingar Covid-19 á Landakoti. Starfsmenn Landspítala búa sig nú undir erfiðar tvær vikur hið minnsta, að sögn forstjóra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×