Fótbolti

Ari og Valdimar æfa einir en gætu mætt Ítölum

Sindri Sverrisson skrifar
Valdimar Þór Ingimundarson og Ari Leifsson eru liðsfélagar hjá Strömsgodset og U21-landsliðinu, og voru áður leikmenn Fylkis.
Valdimar Þór Ingimundarson og Ari Leifsson eru liðsfélagar hjá Strömsgodset og U21-landsliðinu, og voru áður leikmenn Fylkis. Instagram/@stromsgodsetfotball

Vonir standa til þess að Ari Leifsson og Valdimar Þór Ingimundarson geti tekið þátt í mikilvægum landsleikjum sem framundan eru hjá U21-landsliðinu, þrátt fyrir kórónuveirusmit hjá félagsliði þeirra.

Ari og Valdimar leika með Strömsgodset í Noregi en samkvæmt norskum fjölmiðlum var allt norska liðið sett í sóttkví eftir að unglingaliðsleikmaður, sem tók þátt í æfingu aðalliðsins á föstudag, greindist smitaður. 

Árbæingarnir tveir komu til landsins í gær eins og fleiri leikmenn U21-landsliðsins sem leika á Norðurlöndum. Þeir fóru líkt og aðrir í skimun við komuna til landsins og hafa haldið sig utan leikmannahópsins, í þeirri vinnusóttkví sem landsliðið er í. 

Þeir æfa einir á æfingu liðsins í dag, fara í aðra skimun líkt og liðsfélagar þeirra, og reynist sýni úr þeim aftur neikvætt ættu þeir að geta spilað leikinn mikilvæga við Ítalíu á fimmtudaginn. Þetta segir Guðlaugur Gunnarsson, liðsstjóri U21-landsliðsins, við Vísi.

Ein breyting hefur þegar orðið á íslenska hópnum en miðvörðurinn Axel Óskar Andrésson var kallaður inn í stað Ísaks Óla Ólafssonar, sem verður hins vegar með í útileikjunum við Írland og Armeníu 15. og 18. nóvember.

Ítalir með tvo hópa til öryggis

Ísland er í harði baráttu um að komast í lokakeppni EM, í annað sinn í sögunni. Sú barátta er hnífjöfn en Ísland kemst á toppinn í 1. riðli með sigri á Ítalíu á Víkingsvelli á fimmtudaginn.  Efsta lið riðilsins kemst beint á EM og fimm lið af níu með bestan árangur í 2. sæti í undankeppninni komast einnig beint á EM.

Staðan í riðli Íslands í undankeppni EM, þegar Ísland á þrjá leiki eftir. Efsta liðið kemst beint á EM og liðið í 2. sæti getur einnig komist þangað, sé það með betri árangur en lið í 2. sæti í fjórum af hinum átta undanriðlunum.ksi.is

Leiknum við Ítalíu var frestað þar sem að tvö smit greindust í ítalska hópnum við komuna til landsins í október. Ítalir settu saman tvo U21-landsliðshópa fyrir leikina sem framundan eru í von um að geta brugðist við sams konar stöðu núna.

Áhorfendur eru bannaðir á leik Íslands og Ítalíu á fimmtudag en leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×