Fótbolti

Zlatan rak sjálfan sig sem vítaskyttu Milan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic svekktur eftir að hafa skotið yfir úr vítaspyrnu gegn Verona.
Zlatan Ibrahimovic svekktur eftir að hafa skotið yfir úr vítaspyrnu gegn Verona. getty/Mattia Ozbot

Eftir jafnteflið við Verona í gær, 2-2, sagði Zlatan Ibrahimovic eiginlega af sér sem vítaskytta AC Milan.

Zlatan skaut yfir úr vítaspyrnu í stöðunni 1-2 fyrir Verona. Svíinn hefur núna klúðrað þremur af fimm vítum sem hann hefur tekið á tímabilinu. Og hann segist ekki ætla að taka fleiri víti fyrir Milan, allavega ekki í bráð.

„Ég klikkaði á víti og held að ég láti [Franck] Kessie taka það næsta. Það er betra,“ sagði Zlatan eftir leikinn gegn Verona í gær.

Zlatan bætti reyndar upp fyrir vítaklúðrið þegar hann jafnaði fyrir Milan í uppbótartíma. Hann skallaði þá fyrirgjöf Brahims Díaz í netið.

Zlatan hefur skorað í öllum fimm leikjum sínum með Milan í ítölsku úrvalsdeildinni, alls átta mörk. Hann er markahæstur í deildinni.

Milan fer inn í landsleikjahléið með tveggja stiga forskot á toppi ítölsku deildarinnar. Milan hefur unnið fimm af fyrstu sjö deildarleikjum sínum og gert tvö jafntefli.

Mörkin úr leik Milan og Verona má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×