Erlent

Bush segir Bandaríkjamenn geta treyst því að úrslitin séu skýr

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Joe Biden hér ásamt George W. Bush og Lauru Bush árið 2018.
Joe Biden hér ásamt George W. Bush og Lauru Bush árið 2018. Getty/William Thomas Cain

Repúblikaninn George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur óskað Joe Biden og Kamölu Harris innilega til hamingju með sigurinn í bandarísku forsetakosningunum. Hann segir Bandaríkjamenn geta treyst því að kosningarnar hafi verið sanngjarnar og að niðurstöðurnar séu skýrar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Bush sem var 43. forseti Bandaríkjanna og gegndi því embætti frá árinu 2000 til 2008. Segist hann hafa hringt í Biden og Harris til þess að óska þeim til hamingju. Segir Bush að jafn vel þótt hann hafi ekki alltaf verið sammála demókratanum Biden viti hann að þar sé góður maður á ferð.

Segir hann Biden hafa ítrekað við sig að það sé ætlun hins verðandi forseta að vera forseti allra Bandaríkjamanna, ekki bara demókrata. Segist Bush einnig hafa sagt það sama við Biden og hann sagði við Donald Trump og Barack Obama, eftirmenn hans í starfinu, að hann bjóði fram aðstoð sína sé þörf á henni.

Þá óskar hann Donald Trump til hamingju með kosningabaráttu hans, hann hafi staðið sig vel í að fá um 70 milljón atkvæði sem sé ótrúlegur pólitískur árangur að mati Bush. Segir hann Trump í fullum rétti að óska eftir endurtalningu eða hefja lagalega baráttu til að fá úr því skorið hvort rétt hafi verið staðið að kosningunum, en Bandaríkjamenn geti samt sem áður treyst á að kosningarnar hafi farið fram með réttum hætti.

„Bandaríska þjóðin getur treysti því að þessar kosningar voru sanngjarnar, að þær hafi verið heiðarlegar og að úrslitin séu skýr,“ skrifar Bush.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×