Fótbolti

Austurrískt eða skoskt lið í boði fyrir Valskonur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlín Eiríksdóttir og félagar í Valsliðinu fá að vita það skömmu fyrir hádegi í dag hvaða lið bíður þeirra.
Hlín Eiríksdóttir og félagar í Valsliðinu fá að vita það skömmu fyrir hádegi í dag hvaða lið bíður þeirra. Vísir/Daníel

Valskonur fá að vita það í dag hvaða liði þær mæta í annarri umferð forkeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu en þá verður dregið hjá UEFA.

Valsliðið tryggði sér sæti í annarri umferð með sannfærandi 3-0 sigri á finnska liðinu HJK Helsinki í vikunni en Valsliðið fékk þá heimaleik.

Knattspyrnusamband Evrópu hefur nú skipti liðunum niður í fjögurra liða hópa og af þeim sökum getur Valsliðið aðeins mætt tveimur liðum.

Mótherji Valskvenna í næstu umferð verður því annað hvort St. Pölten frá Austurríki eða Glasgow City frá Skotlandi.

St. Pölten vann austurríska meistaratitilinn fimmta árið í röð 2019 en Glasgow City hefur unnið skoska titilinn undanfarin þrettán ár. Bæði lið voru ofar en kvennalið Vals í styrkleikaröðun UEFA.

Þessi fyrrnefndu tvö lið mæta annað hvort Val eða rússneska liðinu CSKA Moskvu sem er fjórða liðið í þessum hóp.

Það verður einnig dregið um það hvort liðanna fái heimaleik þannig að það eru helmingslíkur á því að Valskonur fái annan heimaleik en leikurinn fer fram 18. eða 19. nóvember næstkomandi.

Drátturinn er fram í hádeginu að staðartíma í höfuðstöðvum UEFA eða klukkan ellefu að íslenskum tíma




Fleiri fréttir

Sjá meira


×