Innlent

Fimmtíu þungaðar konur greinst með Covid-19 hér á landi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir á fæðingardeild Landspítalans, hvetur konur til að sækja sér aðstoð á heilsugæsluna ef eitthvað amar að.
Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir á fæðingardeild Landspítalans, hvetur konur til að sækja sér aðstoð á heilsugæsluna ef eitthvað amar að. Almannavarnir

Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir á fæðingarþjónustu Landspítalans segir að um fimmtíu barnshafandi konur hafi greinst með Covid-19 hér á landi. Dæmi eru um að konurnar séu smitaðar í fæðingu. Ekkert bendi til þess að þær séu líklegri til að smitast. Þó séu merki þess að þær veikist verr en aðrir á sama aldri.

Hulda var gestur á upplýsingafundi Almannavarna og Embætti landlæknis í dag. Hún sagði engin dæmi um að Covid-19 sýking hefði áhrif á nýbura. Þá nefndi hún að háþrýstingur, sykursýki, ofþyngd og hækkandi aldur gerðu þunguðum konum erfiðara fyrir í baráttunni við Covid-19 eins og öðrum.

Lítið breyst frá því í vor

Á dögunum var takmörkun sett á viðveru aðstandenda í ómskoðun og annarri rútínuskoðun í aðdraganda fæðingar. Sá háttur sé alls staðar á landinu. Bæði þurfi að vernda þungaðar konur en starfsmennina sömuleiðis. Þeir sinni viðkvæmri og sérhæfðri þjónustu sem slæmt væri að missa í sóttkví eða einangrun.

Ekki væru annars miklar breytingar frá því í vor þegar fyrsta bylgjan skall á. Á tímabili hafi verið strangar reglur um viðveru aðstandenda en slakað hafi verið á þeim í maí. Síðan hafi lítið breyst.

Þrátt fyrir að makar megi sem fyrr vera viðstaddir fæðingu merkir hún kvíða hjá konum í aðdraganda fæðingar. Einhvern ótta að þetta geti breyst þótt það standi ekki til. Þá sé mikilvægt að þeir sem fylgja móður og barni á sængurlegunni fari nákvæmlega eftir leiðbeiningum og sinni sóttvörnum mjög vel.

Sæki sér aðstoð á heilsugæsluna

Hún minnti að lokum þungaðar konur á að leita sér læknishjálpar hjá ljósmóður ef eitthvað bjáti á. Konur eigi ekki að forðast að sækja hjálp á heilsugæsluna.

Þá sagði hún fjölda kvenna sem hefði smitast á meðgöngu vera fimmtíu. Sumar hafi verið smitaðar þegar fæðingin átti sér stað. Þá sé álagið heilmikið á konuna og sömuleiðis starfsfólk og aðstandendur. Það séu aðstæður sem allir vilji forðast.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.