Fótbolti

Heilaaðgerð Maradona gekk vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Armando Maradona á leik Boca Juniors og Club de Gimnasia y Esgrima La Plata en hann lék með því fyrrnefnda og þjálfar nú það síðarnefnda.
Diego Armando Maradona á leik Boca Juniors og Club de Gimnasia y Esgrima La Plata en hann lék með því fyrrnefnda og þjálfar nú það síðarnefnda. EPA-EFE/JUAN IGNACIO RONCORONI

Diego Maradona er sagður vera á batavegi eftir að hafa þurft óvænt að leggjast á skurðarborðið í heimalandi sínu í gær.

Argentínska knattspyrnugoðsögnin fékk ekki góða afmælisgjöf á sextugsafmæli sínu þegar hann veiktist. Maradona var á endanum fluttur á sjúkrahús þar sem hann þurfti síðan að gangast undir heilaaðgerð eftir að hafa fengið blóðtappa.

Blóðtapinn uppgötvaðist þegar Maradona var sendur í sneiðmyndatöku í gær eftir að hann hafði kvartað undan veikindum en hann glímdi þá við blóðleysi og vökvatap um helgina. Einhverjir óttuðust þá að hann væri með kórónuveiruna en svo var ekki. Ástæðan var önnur.

Einkalæknir hans, Leopoldo Luque, sagði að Maradona hafi ráðið vel við aðgerðina og allt hafi gengið vel eftir atvikum.

„Diego er vakandi og honum líður vel. Hann er með smá bólgu sem við fjarlægjum á morgun. Hann réð vel við aðgerðina og allt er í góðu lagi,“ sagði Leopoldo Luque við argentínska fjölmiðla.

Maradona var fluttur á sjúkrahús klukkan 20.00 á staðartíma í Argentínu en aðgerðin var framkvæmd á Olivos sjúkrahúsinu í La Plata. Aðgerðin tók 80 mínútur.

Maradona hélt upp á sextugsafmælið sitt í síðustu viku og mætti þá meðal annars til að stýra liði sínu Gimnasia y Esgrima í argentínsku úrvalsdeildinni en Maradona hefur þjálfað liðið síðan í september 2019.

Það var einmitt síðasta skiptið sem hann sást opinberlega en glöggir menn tóku eftir því að kappinn leit ekki alltof vel út þegar hann var studdur af velli í leikslok.

Nokkrum dögum síðan uppgötvuðu menn ástæðu veikindanna og þá þurfti að bregðast skjótt við.

Stuðningsmenn Gimnasia y Esgrima hafa safnast saman fyrir utan sjúkrahúsið til að sýna Maradona stuðning. Eftir að fréttist af því að aðgerðin hafi tekist vel þá tóku stuðningsmennirnir upp á því að syngja nafnið hans Maradona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×