Innlent

Katrín segir nýja herstöð ekki koma til greina

Heimir Már Pétursson skrifar
Bandarískar herþotur á flugi.
Bandarískar herþotur á flugi. Getty/Mat Gdowsk

Forsætisráðherra segir ekki koma til greina að hennar hálfu að Bandaríkjaher hafi hér fasta viðveru eða reist verði ný bandarísk herstöð á Austfjörðum. Hins vegar hafi herinn ýmsa aðstöðu hér nú þegar vegna varnarsamningsins.

Robert Burke aðmíráll og yfirmaður bandaríska flotans í Evrópu og Afríku viðraði hugmyndir um fasta viðveru kafbátaleitarflugvéla og stuðningssveitar á Keflavíkurflugvelli og hafnaraðstöðu fyrir flotann á Austurlandi á fundi með völdum hópi fréttamanna í bandaríska sendiráðinu í síðustu viku.

Robert Burke aðmíráll, yfirmaður bandariska flotans í Evrópu og Afríku.Mynd/bandaríska sendiráðið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir varnarsamning við Bandríkin og aðildina að Atlantshafsbandalaginu hluta af þeirri þjóðaröryggisstefnu sem stjórnvöld starfi eftir. Á þeim grunni hafi bandaríski herinn ákveðna aðstöðu á Keflavíkurflugvelli meðal annars fyrir kafbátaleitarflugvélar og á þeim grundvelli fari fram loftrýmisgæsla að hálfu NATO.

„En eðlisbreyting eins og var orðuð í þessu samtali, það er að segja föst viðvera eða ný herstöð á Íslandi, kemur ekki til greina. Og hefur ekki verið rædd við íslenska ráðamenn né embættismenn samkvæmt okkar bestu upplýsingum,“ segir Katrín.

Þetta standi ekki til enda yrði um að ræða mikla eðlisbreytingu á stöðu mála sem aldrei hafi verið rædd.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.Vísir/Vilhelm

„Það kann að vera að það tengist minni veru sem forsætisráðherra. Enda liggur okkar afstaða alveg skýr fyrir,“ segir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.

Framlög hafi verið aukin vegna viðhalds á Suðurnesjum til að byggingar væru nothæfar í verkefnum sem væru talin mikilvæg í þessu samstarfi. Allar eðlisbreytingar á samstarfi við Bandaríkjamenn og NATO yrði að ræða fyrir opnum tjöldum á Alþingi.

„Hvað varðar höfn í Finnafirði hafa verið uppi ýmsar hugmyndir um stórskipahafnir, framkvæmdir, iðnað og leitar- og björgunarmiðstöð. En þar stendur heldur ekki til að reisa herstöð,“ segir Katrín Jakobsdóttir.


Tengdar fréttir

Tekjur af Thule-herstöðinni færast á ný til Grænlendinga

Grænlendingar endurheimta margra milljarða verk- og þjónustusamninga við Thule-herstöðina á norðvestur Grænlandi, samkvæmt samningi sem Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, og Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku, undirrituðu í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×