Fótbolti

10 dagar í Ungverjaleik: Höfum aldrei unnið Ungverja án Guðna formanns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðni Bergsson sem formaður KSÍ og svo sem fyrirliði íslenska landsliðsins fyrir sigurleik á móti Ungverjum.
Guðni Bergsson sem formaður KSÍ og svo sem fyrirliði íslenska landsliðsins fyrir sigurleik á móti Ungverjum. Samsett mynd

Í dag eru tíu dagar í úrslitastund hjá strákunum okkar í karlalandsliðinu í fótbolta en 12. nóvember næstkomandi kemur í ljós hvort það verður Ungverjaland eða Ísland sem spilar í lokakeppni Evrópumótsins í sumar.

Vísir ætlar næstu daga að telja niður í þennan mikilvæga leik með fróðleiksmolum eða upprifjunum um viðureignir Íslendinga og Ungverja inn á knattspyrnuvellinum.

Ungverjaland og Ísland hafa mæst ellefu sinnum hjá A-landsliði karla og íslenska landsliðið hefur aðeins unnið þrjá af þessum leikjunum.

Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands hefur spilað alla þessa þrjá sigurleiki íslenska landsliðsins á Ungverjum og er einn af fimm landsliðsmönnum sem unnu Ungverja þrisvar sinnum á árunum 1992 til 1995.

Íslenska liðið vann 2-1 sigur í Búdapest í undankeppni HM í júní 1992, 2-0 sigur á Laugardalsvelli í sömu keppni ári síðar og loks 2-1 á Laugardalsvellinum í undankeppni EM í júnímánuði 1995.

Fyrirsögnin í Tímanum eftir sigurleik á Ungverjum í júní 1993.Skjámynd/Úrklippa úr Tímanum 17. júní 1993

Hinir sem tóku þátt í öllum þessum þremur sigurleikjum voru þeir Birkir Kristinsson, Kristján Jónsson, Rúnar Kristinsson og Arnar Grétarsson. Arnar Grétarsson kom inn á sem varamaður í einum leikjanna en annars voru þeir allir fimm alltaf í byrjunarliðinu.

Guðni Bergsson lék við hlið Kristjáns Jónssonar í miðri vörn íslenska liðsins í öllum þremur leikjunum en Kristján spilaði lykilhlutverk í Framliðinu á þessum tíma.

Ólafur Þórðarson, Eyjólfur Sverrisson og Arnór Guðjohnsen voru fastamenn í landsliðinu á þessu árum en misstu allir af 1992 leiknum vegna meiðsla en mikil forföll voru í íslenska liðinu í leiknum.

Guðni var leikmaður Tottenham í fyrstu tveimur sigurleikjunum en var orðinn leikmaður Bolton í þeim síðasta. Guðni var ekki með fyrirliðabandið í fyrsta sigurleiknum en þá var Sigurður Grétarsson fyrirliði íslenska liðsins.

Guðni var aftur á móti fyrirliði íslenska liðsins í sigurleikjunum á Laugardalsvellinum 3. júní 1993 og 11. júní 1995.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×