Innlent

Vongóð um að börn geti mætt í skólann alla virka daga vikunnar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, á blaðamannafundinum í Hörpu um hertar sóttvarnaaðgerðir í dag.
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, á blaðamannafundinum í Hörpu um hertar sóttvarnaaðgerðir í dag. Vísir/Vilhelm

Menntamálaráðherra segist vongóð um að börn geti mætt í skólann alla virka daga vikunnar ólíkt því sem var í vor þegar hertar aðgerðir tóku gildi. Reglur um útfærslu á skólahaldi verða birtar í dag.

Fréttastofa ræddi við menntamálaráðherra um útfærslu á skólahaldi. 

Sjá má viðtalið í spilaranum hér fyrir neðan:

„Allir skólar munu gera sitt allra besta til að tryggja sem mest kennsumagn út frá þeim sóttvarnareglum sem er verið að kynna. Ég er mjög vongóð um að það muni takast mjög vel til,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.

Aðspurð hvort hún geti útilokað að börn mæti einungis nokkra daga vikunnar í skólann líkt og var í vor segir hún aðgerðirnar miða að því að skólahald geti farið fram með eins eðlilegum hætti og kostur er.

„Nú er verið að skipuleggja þetta með þeim hætti að skólahald geti verið eins mikið og kostur er á.“

Hólfaskipting

Börnum á yngri stigum grunnskóla landsins verður skipt niður í 50 barna hólf. Það á við um 1. bekk og til og með 4. bekk. Eldri börnum verður skipt upp í 25 barna hópa.

Ekki verður grímuskylda fyrir yngstu skólastigin en þar sem ekki verður hægt að tryggja tveggja metra regluna á eldri stigum, verður grímuskylda. Grímuskylda verður í sameiginlegum rýmum þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra regluna.

Lilja segir að með 50 manna hólfaskiptingu þurfi ekki að skipta bekkjum upp sem verði vonandi til þess að börn geti mætt í skólann alla daga vikunnar.

Þá komi hólfaskipting einnig í veg fyrir að stórir hópar þurfi að fara í sóttkví.

Nánar verður fjallað um útfærslu á skólahaldi í kvöldfréttum Stöðvar2.


Tengdar fréttir

Grímuskylda á eldri stigum grunnskóla

Börnum á yngri stigum grunnskóla landsins verður skipt niður í 50 barna hólf. Það á við um 1. bekk og til og með 5. bekk. Eldri börnum verður skipt upp í 25 barna hópa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×