Innlent

Útilokar ekki harðari aðgerðir til að bjarga jólunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundinum í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundinum í dag. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gerir ráð fyrir að hlutabótaleiðin verði framlengd fram á vor. Hún boðar jafnframt frekari efnahagsaðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við þá sem farið hafa illa úti úr faraldrinum. Þá útilokar hún ekki að grípið verði til enn hertari aðgerða fyrir jól.

Þetta sagði Katrín í viðtali við Birgi Olgeirsson fréttamann eftir blaðamannafund ríkisstjórnarinnar um hertar veiruaðgerðir í Hörpu í dag. 

Innt eftir því hvaða efnahagsaðgerðir væru væntanlegar vegna faraldursins benti Katrín á að þingið væri nú með til meðferðar frumvarp um lokunarstyrki sem skipti miklu máli fyrir þá sem loka hafa þurft rekstri sínum vegna veirunnar.

Þá hefði verið lögð til ákveðin útvíkkun á tekjufallsstyrkjafrumvarpi sem er til meðferðar á þingi á ríkisstjórnarfundi í dag. Útvíkkunin geri ráð fyrir að styrkirnir nýtist fleirum en nú er. Félags- og barnamálaráðherra hafi jafnframt kynnt frumvarp sem miði að því að stilla betur af tekjutengdar atvinnuleysisbætur.

„Það verður verkefni á meðan þessi faraldur er, að bregðast við,“ sagði Katrín.

Hún væntir þess jafnframt að hlutabótaleiðin svokallaða, sem í gildi er til áramóta, verði framlengd fram á vor.

Innt eftir því hvort einhugur hafi verið í ríkisstjórn um aðgerðirnar sem taka gildi nú á miðnætti sagði Katrín svo hafa verið. „Algjörlega. Það er búið að vera einhugur í ríkisstjórn í gegnum allt þetta ferli.“ Eftir því sem faraldrinum vindur fram væri þó eðlilegt að umræða og gagnrýni á aðgerðir aukist.

Það var talað um það á fundinum að við gætum mögulega upplifað gleðileg jól og aðventu. Ef þetta tekst ekki, munuð þið herða frekar aðgerðir til að reyna að bjarga jólunum ef svo má segja?

„Ég get auðvitað ekki alveg sagt til um það en ég held við getum ekki útilokað neitt í því sambandi. Við erum bara búin að læra það á þessum mánuðum sem liðnir eru að lofa ekki of miklu og útiloka ekkert.“

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Skólar verða opnir en með takmörkunum

Menntarmálaráðherra segir að skólar verði áfram opnir en með takmörkunum eftir að sóttvarnareglur vegna kórónuveirufaraldursins verða hertar á miðnætti. Takmarkanir á skólastarfi verða kynntar um helgina og taka gildi í næstu viku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×