Fótbolti

Albert fór á kostum í öruggum sigri AZ | Marka­laust hjá Sverri gegn gömlu fé­lögunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Albert var svona líka sáttur í leikslok.
Albert var svona líka sáttur í leikslok. Ed van de Pol/Getty Images

Albert Guðmundsson skoraði tvívegis fyrir AZ Alkmaar er liðið vann 4-1 sigur í Evrópudeildinni í kvöld. Þá spilaði Sverrir Ingi Ingason allan leikinn er PAOK gerði markalaust jafntefli við fyrrum félaga hans í Granada.

Albert var í byrjunarliði AZ sem tók á móti Rijeka á heimavelli í F-riðli í kvöld. Teun Koopmeiners kom AZ yfir með marki úr vítaspyrnu snemma leiks og Albert bætti við öðru marki þegar 20. mínútur voru liðnar af leiknum.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik en í þeim síðari skoraði Jesper Karlsson þriðja mark heimamanna áður en hinn 23 ára gamli Albert bætti við því fjórða þegar klukkutími var liðinn af leiknum. Gestirnir minnkuðu muninn í 4-1 fyrir leikslok en nær komust þeir ekki.

AZ vann magnaðan 0-1 útisigur á Napoli í fyrstu umferð og eru því með sex stig að loknum tveimur leikjum. Í hinum leik kvöldsins vann Napoli 0-1 útisigur á Real Sociedad þökk sé marki Matteo Politano.

Sverrir Ingi í leik kvöldsins.Joaquin Corchero/Getty Images

Sverrir Ingi Ingason var að venju á sínum stað í vörn gríska liðsins PAOK er það heimsótti Granada á Spáni í E-riðli. Hinn 27 ára gamli Sverrir Ingi lék einmitt með Granada árið 2017 og var því að mæta sínum gömlu félögum.

Fór það svo að leiknum lauk með markalausu jafntefli og PAOK því með tvö stig í 3. sæti að loknum tveimur umferðum. Granada er á toppi riðilsins með fjögur stig og PSV í 2. sæti með þrjú stig.


Tengdar fréttir

Íslendingarnir léku í jafntefli | Zlatan klúðraði vítaspyrnu

Fjöldinn allur af leikjum er nú búinn í Evrópudeildinni í knattspyrnu. Íslendingalið CSKA Moskva gerði markalaust jafntefli á heimavelli og þá brenndi Zlatan Ibrahimovic af vítaspyrnu fyrir AC Milan og var tekinn út af í hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×