Innlent

Sveitarfélög og verktakar þurfi að draga úr álagningu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Vísir/vilhelm

Ekki kemur til greina að heimila kaup á eldri íbúðum á höfuðborgarsvæðinu með hlutdeildarlánum að sögn félagsmálaráðherra. Sveitarfélög og verktakar þurfi að draga úr álagningu til að byggja megi hagkvæmar íbúðir.

Útfærsla hlutdeildarlána hefur verið harðlega gagnrýnd í umsögnum við reglugerð um lánin. Hægt verður að sækja um lánin frá og með mánaðarmótum en Reykjavíkurborg hefur meðal annars bent á að líklega verði lítið um úthlutanir á höfuðborgarsvæðinu á næstu misserum þar sem íbúðir í aðeins einni fasteign uppfylli skilyrði.

Borgin og fleiri umsagnaraðilar hafa talið að einnig eigi að lána fyrir eldri íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, líkt og verður gert á landsbyggðinni.

„Við erum ekki að fara breyta grundvallaratriðum í grunnhugsun kerfisins. Vegna þess að grunnhugsun kerfisins er að hvetja til þess að byggðar verði hagkvæmar íbúðir á sama tíma og við ætlum að lána vaxtalaust til fólks til að kaupa þær íbúðir,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra.

Hagkvæmar íbúðir sem eru í byggingu í Gufunesi.mynd/Egill Aðalsteinsson

Hann hefur ekki áhyggjur af því að uppbyggingin færist á jaðar höfuðborgarsvæðisins vegna kostnaðarmarka, líkt og svæðisskipulagsstjórar hafa meðal annars nefnt í sinni umsögn.

Hugað verði þó að einhverjum athugasemdum við endurskoðun reglugerðar.

„Eins og varðandi ákveðin upphæðarmörk, samspil við úthlutanir og hvernig því er háttað og svo framvegis.“ Hann á von á því að gengið verði frá þessum atriðum í næstu viku.

Ætlað inngrip á fasteignamarkaðinn er stórtækt og ráðherra segir kallað eftir breytingum. Gert er ráð fyrir að lánað verði fyrir um fjögur til fimm hundruð íbúðum á ári, samtals fyrir um fjóra milljarða króna árlega.

„Og það er fullkomnlega eðlilegt að samhliða því séum við að hvetja bæði sveitarfélög og verktaka til að draga úr sinni álagningu og láta ekki unga fólkið sitja uppi með það um ókomna tíð,“ segir Ásmundur.

Hann bendir á uppbyggingu hagkvæmra íbúða í Gufunesi og segir vel hægt að byggja hagkvæmar íbúðir í borginni. „Við höfum þegar séð verkefni fara af stað og höfum heyrt af fleiri verkefnum sem eru í pípunum.“

„Við sjáum að það er hægt og það væri uppgjöf hjá stjórnvöldum, bæði hjá sveitarfélögum og ríki að segja annað,“ segir Ásmundur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.