Fótbolti

Ísak segir fimmtán ára frænda sinn vera betri en hann var á sama aldri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með unglingalandsliði Íslands.
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með unglingalandsliði Íslands. Getty/Piaras Ó Mídheach

Expressen skrifar mikið um framtíð íslenska unglingalandsliðsmannsins Ísaks Bergmann Jóhannessonar sem sænska blaðið orðar við mörg af stærstu fótboltaklúbbum Evrópu.

Blaðamaður Expressen gengur líka svo langt að vera búinn að finna eftirmann Ísaks hjá Norrköping og sá er kemur úr sömu fjölskyldunni ofan af Skipaskaga.

Njósnari Norrköping segir frá því að tíu af stærstu klúbbum Evrópu hafa sýnt Ísaki áhuga en þessi sautján ára strákur er þegar kominn í lykilhlutverk í sænsku úrvalsdeildinni sem og í íslenska 21 árs landsliðinu.

Anel Avdic á Expressen ræddi við Ísak eftir síðasta leik Norrköping þar sem vitað var af njósnara Liverpool í stúkunni.

Avdic var nánast búinn að ákveða það að Norrköping myndi selja Ísak Bergmann í vetur og spurði Ísak út í það hvort frændi hans Jóhannes Kristinn Bjarnason myndi jafnvel koma í staðinn fyrir hann.

Ísak Bergmann og Jóhannes Kristinn eru synir bræðranna Jóhannes Karls Guðjónssonar og Bjarna Guðjónssonar sem náðu því á einum tímapunkti að spila saman með íslenska A-landsliðinu og þá var eldri bróðir þeirra Þórður einnig með.

Ef marka má orð Ísaks þá gætu þeir frændur jafnvel spilað saman með íslenska A-landsliðinu í framtíðinni.

Jóhannes Kristinn Bjarnason er núna á reynslu hjá Norrköping og fær á meðan að búa hjá Ísaki frænda sínum. Hann er hér í miðjunni á myndinni hér fyrir ofan en hún var tekin þegar hann spilaði sinn fyrsta meistaraflokks leik með KR.

„Hann er búinn að vera að æfa með okkur í eina viku. Feður okkar eru bræður. Hann er mjög góður miðjumaður og framherji. Hann er betri en ég var þegar ég var fimmtán ára. Hann getur líka spilað frammi,“ sagði Ísak.

„Hann er kannski betri en ég var þegar ég kom hingað. Það er mjög gaman að hafa hann hér. Við spiluðum fótbolta saman þegar við vorum yngri. Það er því mjög skemmtilegt að hann sé hér í Norrköping. Hann ræður vel við hraðann á æfingunum,“ sagði Ísak.

„Þegar þú ferð til United, mun Jóhannes þá taka við af þér,“ spyr sænski blaðamaðurinn.

Ísak hlær og svarar svo: „Við sjáum til, við sjáum til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×