Fótbolti

Fylltu stúkuna sína af fimmtán þúsund böngsum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stúkan á Abe Lenstra Stadium var full á leik Heerenveen og Emmen  þótt að áhorfendur væru bannaðir.
Stúkan á Abe Lenstra Stadium var full á leik Heerenveen og Emmen  þótt að áhorfendur væru bannaðir. EPA-EFE/COR LASKER

Það voru engir áhorfendur í stúkunni á síðasta leik hollenska liðsins Heerenveen en stúkan á heimavelli liðsins var þó langt frá því að vera tóm.

Gamla Íslendingaliðið Heerenveen í Hollandi nýtti áhorfendabannið í Hollandi til góðra verka á dögunum. Heerenveen ákvað að safna fyrir krabbameinsveik börn en gera það á nýstárlegan hátt.

Heerenveen mætti FC Emmen í hollensku deildinni á föstudaginn og áhorfendur voru bannaðir vegna sóttvarnarreglna í landinu en líkt og annars staðar í Evrópu þá eru Hollendingar að berjast við aðra bylgju í kórónuveirufaraldrinum.

Forráðamenn Heerenveen vildu ekki hafa stúkuna tóma og fundu leið til að bæta úr því og styrkja um leiðinni gott málefni.

Heerenveen fór í samstarf við KiKa og lyfjafyrirtækið MSD en þau kvöttu stuðningsmenn hollenska liðsins til að kaupa lítinn bangsa og um leið vekja athygli á stöðu barna með krabbamein í Hollandi.

Stuðningsmenn Heerenveen létu sitt ekki eftir liggja heldur keyptu upp alla fimmtán þúsund bangsana sem voru í boði og það á fyrsta sólarhringnum eftir þeir fóru í sölu.

Samtals safnaði meira en 230 þúsund evrur, 38 milljónir í íslenskum krónum, sem munu fara í þetta mikilvæga og þarfa málefni.

Allir þessir fimmtán þúsund bangsar voru síðan klæddir í búning Heerenveen og var síðan stillt upp út um alla stúku á mjög myndrænan hátt.

Þetta hafði líka góð áhrif á leikmenn Heerenveen sem unnu leikinn sannfærandi 4-0. Hér fyrir neðan má sjá sviðmyndir frá leiknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.