Innlent

Börn og starfsmenn á leikskólanum Fífuborg í sóttkví

Kjartan Kjartansson skrifar
Þetta er í annað skiptið í þessum mánuði sem kórónuveirusmit greinist hjá starfsmanni leikskólans Fífuborgar í Grafarvogi.
Þetta er í annað skiptið í þessum mánuði sem kórónuveirusmit greinist hjá starfsmanni leikskólans Fífuborgar í Grafarvogi. Reykjavíkurborg

Fimmtán börn og að minnsta kosti fjórir starfsmenn á Ljósheimadeild í leikskólanum Fífuborg í Grafarvogi verða í sóttkví út vikuna eftir að starfsmaður þar greindist smitaður í gær. Þetta er í annað skipti sem kórónuveirusmit kemur upp á leikskólanum í þessum mánuði.

Helga Sigurðarsdóttir, leikskólastjóri Fífuborgar, staðfestir við Vísi að börnin og starfsfólkið verði í sóttkví út þessa viku. Verið sé að skoða hvort senda þurfi þrjá aðra starfsmenn í sóttkví sem deildu kaffistofu með þeim sem greindist smitaður á föstudag. Smitið hafi átt sér stað utan leikskólans.

Hún segir að tekist hafi að halda góðri hólfun í starfsemi leikskólans þannig að aðrar deildir geta haldið áfram starfsemi þar sem ekki hafi verið gerð krafa um að aðrir færu í úrvinnslusóttkví.

Í tölvupósti til foreldra í morgun segir að hópurinn fari líklega í sýnatöku á föstudag. Foreldrar barnanna þurfa ekki að fara í sóttkví nema annað sé tekið fram.

Smitið nú segir hún ótengt öðrum starfsmanni sem greindist smitaður af veirunni fyrir tveimur vikum. Þá þurftu um þrjátíu börn á aldrinum þriggja til sex ára og níu starfsmenn að fara í sóttkví. Tvær deildir þurftu að fara í úrvinnslusóttkví.

„Þetta er alveg ferlegt. Það er erfitt að halda úti skólastarfi svona,“ segir Helga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×