Stórar bergfyllur hrundu úr Krýsuvíkurbjargi og nýjar sprungur opnuðust á bjargbrúninni í stóra jarðskjálftanum í fyrradag. Þá hefur virkni aukist í Engjahver við Krýsuvík og sterka brennisteinslykt leggur frá Grænavatni. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Við Hælsvík er bjargið 30 til 60 metra hátt og þar er helsti áningarstaður ferðamanna, sem koma til að sjá fuglabjargið og horfa út á hafið. Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar settu þar upp bráðabirgðalokun í gærmorgun við nýja sprungu. Á 7-8 stöðum þar í kring hafa nýjar sprungur opnast og eldri stækkað eftir skjálftahrinuna í fyrradag.

„Það hefur hrunið hér talsvert mikið úr berginu á mörgum stöðum og nýjar sprungur opnast,“ segir Óskar Sævarsson, landvörður í Reykjanesfólkvangi, um leið og hann bendir á eina af sprungunum.
„Gamlar sprungur sem hafa verið að myndast síðustu árin hafa gliðnað.“
Á nokkrum stöðum má sjá ný sár í bjarginu.

„Það hafa hrunið hér niður á mörgum stöðum stórar og miklar fyllur. Það sem verra er: Hér er aðgengi flestra og þetta er alveg á bjargbrúninni og er mjög krítískt ástand, held ég, eins og staðan er núna.
Enda er búið að bregðast við hér, svona fyrstu viðbrögð. En betur má ef duga skal og ljóst að það þarf að tryggja hér brúnina einhverja hundruð metra,“ segir Óskar.

Gamla varúðarskiltið á veginum að bílastæðinu er svo sannarlega enn í fullu gildi: „Varúð á bjargbrún,“ stendur þar.
„Hér erum við að tala um tugi tonna af efni sem mun falla hér fram af berginu, bara í næsta skjálfta eða í þessum hræringum sem nú standa yfir."

Óskar hefur ekki séð miklar breytingar á hverum við Krýsuvík nema í Engjahver, sem oft er nefndur Stórihver.
„Það er alveg greinileg einhver aukning á virkni í honum. Það mátti sjá það að kvöldi skjálftadags að gufustrókurinn úr honum var miklu meiri heldur en að öllu jöfnu.“
Og fnykur stóð af sprengigígnum Grænavatni.

„Ég hef aldrei fundið eins sterka brennisteinslykt á ævinni eins og var að kvöldi skjálftadags upp úr því vatni.
En það kæmi mér nú ekki á óvart heldur ef það yrðu breytingar á vatnsstöðu Kleifarvatns. Það hefur gerst áður,“ segir landvörðurinn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: