Fótbolti

Manchester United fylgist með Ísaki: „Gaman að stórlið horfi á mig“

Sindri Sverrisson skrifar
Stórlið fylgjast með Ísaki Bergmann Jóhannessyni.
Stórlið fylgjast með Ísaki Bergmann Jóhannessyni.

Hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann Jóhannesson hefur heldur betur vakið athygli með frammistöðu sinni með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Staðarblaðið Norrköpings Tidningar segir orðróm í gangi um að Manchester United hafi fylgst með Skagamanninum unga í leik gegn Varbergs BoIS á sunnudaginn, og spurði Ísak út í þann orðróm:

„Ég hugsa ekki mikið um slíkt. Það er gaman að stórlið horfi á mig og finnist ég góður leikmaður en ég einbeiti mér alfarið að Norrköping,“ sagði Ísak, sem lagði upp eitt mark í 3-1 sigri í leiknum.

Ísak hefur skorað þrjú mörk og lagt upp átta í sænsku úrvalsdeildinni í ár. Hann hefur áður verið sagður í sigti ítölsku meistaranna í Juventus.

Ísak, sem er af miklum fótboltaættum, gekk til liðs við Norrköping í árslok 2018 frá ÍA. Hann er samningsbundinn sænska félaginu til næstu þriggja ára.

Ísak hefur nú í haust leikið tvo fyrstu leiki sína fyrir U21-landslið Íslands og á samtals 23 leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands. Í þeim hefur hann skorað 11 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×