Fótbolti

Viðar Örn með 31 mark í 34 leikjum í Noregi og tók metið af Rikka Daða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson kann vel við sig í búningi Vålerenga liðsins.
Viðar Örn Kjartansson kann vel við sig í búningi Vålerenga liðsins. Skjámynd/Youtube

Viðar Örn Kjartansson bætti í gær met Ríkharðs Daðasonar þegar hann skoraði sitt þrítugasta mark í norsku úrvalsdeildinni í aðeins sínum 34. leik í deildinni. Enginn Íslendingur hefur verið fljótari í þrjátíu mörk í Eliteserien en Selfyssingurinn marksækni.

Ríkharður Daðason hafði áður verið fljótastur Íslendinga til að skora þrjátíu mörk í norsku úrvalsdeildinni en því náði hann á sínu öðru tímabili í deildinni sumarið 1999. Ríkharður skoraði sitt þrítugasta mark í norsku deildinni í sínum 43. leik sem var á móti Brann 18. september 1999.

Ríkharður Daðason spilaði með Viking Stavangri á árunum 1998 til 2000 og skoraði þá 48 mörk í aðeins 69 leikjum. Hann kom aftur árið 2002 til að spila með Lilleström og bætti þá við 4 mörkum í 12 leikjum á tveimur tímabilum.

Viðar Örn lagði auðvitað grunninn að þessu með því að skora 25 mörk í 29 leikjum með Vålerenga sumarið 2014 en hefur tekið upp þráðinn í ár. Viðar Örn snéri aftur til norska liðsins í haust og er nú kominn með sex mörk í fyrstu fimm leikjum sínum á leiktíðinni.

Viðar Örn var ekki búinn að skora í tveimur leikjum í röð fyrir leikinn á móti Sandefjord í gær en kom sínu liði í 2-0 með tveimur fyrstu mörkum leiksins í þessum 3-0 sigri Vålerenga. Viðar er því farinn að nálgast markahæstu menn þrátt fyrir að hafa leikið sinn fyrsta leik um miðjan september.

Helgi Sigurðsson er þriðji á listanum en hann skoraði sitt þrítugasta mark í norsku deildinni í sínum sextugasta leik sumarið 2001.

Tryggvi Guðmundsson er síðan fjórði en hann skoraði sitt þrítugasta mark í norsku deildinni í sínum 66. leik en hann var þá á sínu þriðja tímabili.

Veigar Páll Gunnarsson er markahæsti íslenski leikmaðurinn í sögu norsku úrvalsdeildarinnar með 71 mark í 177 leikjum.

Flest mörk Íslendinga í norsku úrvalsdeildinni

  • Veigar Páll Gunnarsson 71 mark (177 leikir)
  • Tryggvi Guðmundsson 60 (142)
  • Ríkharður Daðason 52 (81)
  • Matthías Vilhjálmsson 47 (180)
  • Björn Bergmann Sigurðarson 40 (123)
  • Helgi Sigurðsson 39 (104)
  • Pálmi Rafn Pálmason 32 (166)
  • Viðar Örn Kjartansson 31 (34)

Fæstir leikir til að skora 30 mörk

  • 34 leikir - Viðar Örn Kjartansson
  • 43 leikir - Ríkharður Daðason
  • 60 leikir - Helgi Sigurðsson
  • 66 leikir - Tryggvi Guðmundsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×