Innlent

Rasísk skilaboð límd á biðskýli Strætó: „Hvet fólk til að tilkynna þau“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó segir Strætó fordæma skilaboðin.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó segir Strætó fordæma skilaboðin. VÍSIR

„Okkur finnst þetta ljót skilaboð sem vekja óhug,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó um límmiða sem límd hafa verið á biðskýli Strætó.

Á límmiðana eru rituð rasísk skilaboð og hefur borið meira á slíkum skilaboðum nú en áður að sögn Guðmundar.

„Við fordæmum svona skilaboð með öllu og viljum gera okkar besta til að fjarlægja þau um leið og við komum auga á slíkt,“ sagði Guðmundur Heiðar Helgason upplýsingafulltrúi Strætó.

Fjarlægði límmiðana sjálfur

Guðmundur segist hafa séð ábendingu um límmiðana á Twitter í dag. Hann var þó í vandræðum með að staðsetja umrætt skýli.

„Svo skoðaði ég myndina betur og sá þá byggingu sem ég kannast við. Þegar ég áttaði mig á því að þetta skýli væri á biðstöðinni að Gullinbrú, nálægt heimili mínu þá rölti ég þangað og skóf límmiðana af með lyklunum,“ sagði Guðmundur Heiðar.

Svipuð skilaboð birtust á biðskýli Strætó fyrir helgi.

Hann segir þetta ekki í fyrsta sinn sem Strætó hefur þurft að glíma við svipaðan áróður.

„Skilaboðin eru yfirleitt rasísk og fordómafull sem við fordæmum með öllu. Hjá okkur er starfsmaður sem sinnir biðstöðvartöflum og hann fjarlægir skilaboð á borð við þessi þegar ábendingar berast,“ sagði Guðmundur Heiðar.

Hvetur fólk til að tilkynna fordómafull skilaboð

„Ég veit ekki hvort þessi skilaboð eru á fleiri stöðum en ég hvet fólk til að kroppa þetta af. Þó þarf að gæta varúðar þar sem dæmi eru um það erlendis að búið sé að líma eitthvað beitt undir límmiðana. Því hvet ég fólk til að hafa varann á en fylgjast með umhverfinu og tilkynna slíkt til Strætó,“ sagði Guðmundur Heiðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×