Fótbolti

EM alls staðar gæti farið fram í einu landi næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Komist íslenska landsliðið á EM næsta sumar þá lendir það í riðli með Portúgal, Frakklandi og Þýskalandi. Hér má sjá landsliðsþjálfara þeirra landa eða þá Fernando Santos, Joachim Löw og Didier Deschamps.
Komist íslenska landsliðið á EM næsta sumar þá lendir það í riðli með Portúgal, Frakklandi og Þýskalandi. Hér má sjá landsliðsþjálfara þeirra landa eða þá Fernando Santos, Joachim Löw og Didier Deschamps. Getty/Alex Nicodim

Það er ekki öruggt að þær þjóðir sem telja sig vera að fara að hýsa leiki á Evrópumótinu næsta sumar muni gera það þegar á hólminn er komið.

Evrópumótið í knattspyrnu átti að fara fram síðasta sumar en var frestað um eitt ár vegna kórónuveirufaraldursins. Nú gæti mótið tekið enn frekari breytingum.

Alexander Ceferin, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, er nú farinn að tala um það að fækka gestgjöfunum og jafnvel láta Evrópumótið bara fara fram í einu landi.

Evrópumótið hefur verið kallað EM alls staðar en það átti að fara fram í tólf mismunandi löndum víðs vegar um Evrópu. Undanúrslitin og úrslitaleikurinn á síðan að vera á Englandi.

„Planið okkar er að halda Evrópumótið með óbreyttu sniði en í stað þess að hafa það í tólf löndum þá gætum við verið með Evrópumótið í ellefu, átta, fimm eða jafnvel einu landi,“ sagði Alexander Ceferin í viðtali við Movistar+ á Spáni.

Ceferin segir að það sé of snemmt að ákveða hvort að það verði áhorfendur leyfðir á leikjunum eða ekki enda hafa menn miklar áhyggjur af mikilli útbreiðslu kórónuveirunnar í Evrópu þessa dagana.

„Við höfum alltaf áhyggjur af stöðunni en við erum jafnframt alveg viss um að þetta Evrópumóti muni fara fram,“ sagði Ceferin.

Íslenska landsliðið er eitt af þeim átta löndum sem keppa um fjögur laus sæti í keppninni. Ísland mætir Ungverjalandi á útivelli í næsta mánuði í hreinum úrslitaleik um farseðil á EM 2020 (21).

Komist Ísland áfram þá átti liðið að spila leiki sína í  Búdapest og München en samkvæmt þessum fréttum þá gæti það breyst í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×