Innlent

Bjarni telur betra að semja aftur en segja upp tollasamningi við ESB

Heimir Már Pétursson skrifar

Fjármálaráðherra segir áform Íslendinga um aukin útflutning landbúnaðarafurða til Evrópusambandsins, eftir að gerður var tollasamningur við sambandið, ekki hafa gengið eftir. Engin ákvörðun hafi verið tekin um að segja samningnum upp.

Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra út í tollasamninga við Evrópusambandið í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Það gerði hann í ljósi viðbragða samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við misbresti á framkvæmd samningsins.

En Sigurður Ingi Jóhhannsson formaður Framsóknarflokksins lýsti þeirri skoðun sinni í blaðagrein að réttast væri að segja upp samningi Íslands við Evrópusambandið um tolla á landbúnaðarvörum í ljósi reynslunnar.

Jón Steindór Valdimarsson vildi vita hvort ríkisstjórnin hefði rætt að segja upp tollasamningi við Evrópusambandið.Vísir/Vilhelm

„Hefur þetta komið til tals innan ríkisstjórnarinnar að segja upp þessum samningi. Jafnframt vil ég spyrja hæstvirtan fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins hvort komi til greina að hálfu Sjálfstæðisflokksins að fara í þá vegferð að segja upp þessum tollasamningi,“ sagði Jón Steindór.

Fjármálaráðherra sagði að fram hefðu komið almennar ábendingar um að útflutningstölur frá Evrópusambandinu til Íslands væru aðrar en tölur héðan um innflutng frá sambandinu. Þetta væri í skoðun.

„Ég tel að það sé alveg ljóst að áform okkar um að nýta tollasamninginn við Evrópusambandið hafi ekki gengið eftir hvað varðar útflutning okkar Íslendinga. Breytingin sem hefur orðið Evrópusambands megin við það að Bretar stigu út úr Evrópusambandinu kallar líka á einhver viðbrögð. Á þessari stundu hefur engin ákvörðun verið tekin um að segja upp þessum samningi af okkar hálfu. Ég tel að það ætti miklu frekar að tala um að reyna að endursemja og reyna að bregðast við því sem breytt er frá því samningurinn var gerður. En í augnablikinu er eingöngu um að ræða óformlegt samráð við alla hagsmunaaðila,“ sagði Bjarni Benediktsson.

Fjármálaráðherra segir í skoðun hvers vegna tölur um útflutning frá Evrópusambandinu til Íslands ber ekki saman við tölur hér á landi við innflutning frá ríkjum sambandsins.Vísir/Vilhelm

Tengdar fréttir

Brexit og tollkvótar

Í gildi eru tollasamningar við Evrópusambandið og með útgöngu Breta úr Evrópusambandinu þá eru þessir tollasamningar í algjöru uppnámi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×