Innlent

Lögregla og Neyðarlína í nánara samstarf

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar

Unnið er að breyttu verklagi og nánara samstarfi milli lögreglu og neyðarvarða hjá Neyðarlínunni, eftir að ábending sem barst um eldsvoða við Torfastaði á föstudag lenti milli skips og bryggju. Hönnunargalli í tölvukerfi hefur sömuleiðis verið lagfærður.

„Þetta lýsti sér í því að ef lögreglumenn voru uppteknir í símtölum og símtal kom inn þá birtist það ekki á svokölluðum verkefnalista hjá þeim, þannig að þeir gátu ekki séð símtalið né hringt til baka,“ segir Gylfi Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá fjarskiptamiðstöð lögreglu.

Mikið álag var á fjarskiptamiðstöðinni þetta kvöld en undir eðlilegum kringumstæðum er hringt í þá sem ná ekki í gegn, auk þess sem Neyðarlinu ber að tilkynna slökkviliði sérstaklega um eldsvoða. Hins vegar var hvorki hringt til baka né slökkviliði tilkynnt um atvikið. Gylfi segir að álagið sé mismikið, málin séu mistímafrek, en að það sé aldrei undirmannað. Hann harmi þetta atvik en að búið sé að grípa til varúðarráðstafana.

„Núna í þessari viku ætlum við að hefja prufufasa þannig að neyðarvörður og lögreglumaður sitji saman að svara. Eftir þennan prufufasa ætlum við að fara lengra og það verður þannig að símsvörun og móttaka verkefna, sem tengjast lögreglu, verða á einni hendi hjá Neyðarlínunni,“ segir Gylfi.

Það sem af er ári hafa sjötíu þúsund símtöl borist fjarskiptamiðstöðinni og meðalsvartími er um 8,4 sekúndur.


Tengdar fréttir

Þrír hundar mannsins brunnu inni í húsbílnum

Karlmaðurinn sem lést í eldsvoða í húsbíl við Torfastaði í Grafningi í Árnessýslu á föstudagskvöld bjó þar á meðan hann safnaði sér fyrir landi þar sem hann langaði til að búa með hundunum sínum þremur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×