Fótbolti

Glímir enn við höfuðmeiðsli og mætir ekki Íslandi

Sindri Sverrisson skrifar
Sofia Jakobsson og Sveindís Jane Jónsdóttir á ferðinni þegar Svíþjóð og Ísland gerðu 1-1 jafntefli í síðasta mánuði.
Sofia Jakobsson og Sveindís Jane Jónsdóttir á ferðinni þegar Svíþjóð og Ísland gerðu 1-1 jafntefli í síðasta mánuði. vísir/vilhelm

Svíar verða með enn sterkari leikmannahóp en á Laugardalsvelli í september, í seinni leiknum við Íslendinga í baráttunni um sæti á EM kvenna í fótbolta.

Svíþjóð og Ísland mætast í annað sinn á skömmum tíma í Gautaborg 27. október, eftir að hafa gert 1-1 jafntefli í Reykjavík. Liðin eru jöfn á toppi síns riðils með 13 stig en Svíar hafa fjórum mörkum betri markatölu. Liðið sem vinnur leikinn í Gautaborg á því góða von um að vinna riðilinn og komast beint á EM, en liðið í 2. sæti gæti einnig komist á EM.

Líkt og í fyrri leiknum verða Svíar án Fridolinu Rolfö, leikmanns Wolfsburg. Hún fékk heilahristing í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, þar sem Wolfsburg tapaði 3-1 gegn Söru Björk Gunnarsdóttur og stöllum hennar í Lyon, og hefur ekki jafnað sig.

„Við vonumst til þess að hún verði með í næsta verkefni,“ sagði Peter Gerhardsson, þjálfari Svía, þegar hann kynnti hópinn sinn í dag. „Það er erfitt fyrir okkur að vera að ræða um þessi meiðsli og Wolfsburg verður að gera það. En það er þó hægt að segja að það var ekki rétt sem heyrðist sagt, að um „minni háttar heilahristing“ hefði verið að ræða“ sagði Gerhardsson.

Svíar verða áfram án síns aðalmarkmanns, Hedvig Lindahl, vegna meiðsla. Þeir endurheimta hins vegar bakvörðinn Hönnu Glas sem leikur með Bayern München. Að öðru leyti er hópurinn sá sami og kom til Reykjavíkur.

Svíþjóð mætir Lettlandi í aðdraganda leiksins við Ísland, og getur með sigri í báðum leikjum tryggt sér sæti á EM. 

Ísland leikur aðeins gegn Svíþjóð í þessu verkefni en Jón Þór Hauksson kynnti hópinn sinn fyrir skömmu. Hópinn má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×