Innlent

Nær þriðjungur ók of hratt við grunn­skóla

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Börn að leik á skólalóð Austurbæjarskóla. Mynd er úr safni.
Börn að leik á skólalóð Austurbæjarskóla. Mynd er úr safni. Vísir/vilhelm

Rétt tæplega 597 hraðakstursbrot hafa verið skráð hjá ökumönnum við grunnskóla höfuðborgarsvæðisins síðan í ágúst. 31 prósent ökumanna sem mældir voru við skólana óku of hratt. Meðalhraði hinna brotlegu er 43 km/klst þar sem hámarkshraði er 30 km/klst en sá sem hraðast ók var á 65 km/klst. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla hefur sinnt auknu eftirliti við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu síðan skólahald hófst aftur eftir sumarfrí í ágúst. 

Meðal annars hefur verið notast við ómerkta lögreglubifreið með hraðamyndavélabúnaði við eftirlitið. Fram að þessu hefur hraðamyndavélin skráð 597 hraðakstursbrot þar sem ökumenn mega búast við sekt og í sumum tilfellum að verða sviptir ökuleyfi, að því er segir í tilkynningu. 

Á þessum stöðum, þar sem leyfður hámarkshraði er 30 km/klst, hefur meðalhraði hinna brotlegu verið 43 km/klst. Við fyrrnefndar hraðamælingar hefur enn fremur 47 ökutækjum verið ekið á 50 kílómetra hraða eða meira. Sá sem hraðast ók mældist á 65. Alls hafa 2.003 ökutæki verið vöktuð við þessar hraðamælingar og því er brotahlutafallið 31%. 

„Niðurstaðan sýnir að ökumenn verða að gera betur og því er full ástæða til að minna þá á að aka hægar og sýna meiri tillitssemi í námunda við skólana þar sem margir eru á ferli, m.a. nýir vegfarendur sem voru að hefja skólagöngu,“ segir í tilkynningu lögreglu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.