Fótbolti

Elísabet í skýjunum eftir langþráðan sigur: „Sennilega einn af þeim bestu á ferlinum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir er á góðri leið með að koma Kristianstad í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn.
Elísabet Gunnarsdóttir er á góðri leið með að koma Kristianstad í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn. HEIMASÍÐA KRISTIANSTAD

Elísabet Gunnarsdóttir var hæstánægð eftir leik Kristianstad og Rosengård í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Kristianstad vann 1-2 sigur á meisturunum en þetta er í fyrsta sinn sem Kristianstad nær í stig gegn Rosengård á útivelli síðan Elísabet tók við liðinu 2009.

„Þetta er sennilega einn af bestu sigrunum á ferlinum. Ég er búin að bíða eftir þessu í tólf ár,“ sagði Elísabet við Aftonbladet eftir leikinn í gær.

Kristianstad er í 3. sæti sænsku deildarinnar og ef liðið endar þar kemst það í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Kristianstad endaði í 7. sæti sænsku deildarinnar í fyrra en besti árangur liðsins er 4. sæti sem það náði 2018.

„Að sjálfsögðu hef ég verið með stóra drauma fyrir Kristianstad en það hefur kannski ekki alltaf verið innistæða fyrir því að við ættum að vera bestar. Í dag fengu þær klárlega fleiri færi en við en það er líka svolítið þannig sem við leggjum leikinn upp. Við þurfum ekki að biðjast afsökunar á því að hafa unnið. Við erum góðar,“ sagði Elísabet. 

Svava Rós Guðmundsdóttir lék ekki með Kristianstad í gær vegna meiðsla. Þá er Sif Atladóttir nýbúin að eignast barn.

Glódís Perla Viggósdóttir var á sínum stað í vörn Rosengård sem er í 2. sæti deildarinnar með 40 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Göteborg þegar fjórum umferðum er ólokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×