Innlent

Síðustu dagar þungir eftir metfjölda sjúkraflutninga

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir fjölgun Covid-sjúkraflutninga að hluta skýra þennan mikla fjölda sjúkraflutninga.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir fjölgun Covid-sjúkraflutninga að hluta skýra þennan mikla fjölda sjúkraflutninga. Vísir/Vilhelm

Síðasta sólarhring var áttatíu og ein boðun í sjúkraflutninga hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Var dagurinn nokkuð rólegri en dagana þar á undan þar sem met voru slegin þegar kemur að fjölda sjúkraflutninga, fyrst 148 á fimmtudag og 160 á föstudag.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir fjölgun Covid-sjúkraflutninga skýra þennan mikla fjölda að hluta. Síðustu dagar hafi verið mjög þungir og að reynt hafi á mannskapinn. Það hafi þó hjálpað til að slökkvilið hafi misst fáa niður í einangrun og fáa í sóttkví. Það skýrist að hluta til af heppni en einnig að starfsmenn hafi farið varlega.

„Það eru náttúrulega allir slegnir yfir því að þurfa að glíma við þetta aftur frá í vor. Menn eru mjög einbeittir í að klára þetta og takast á við þetta. Við höfum verið að vinna í því að fjölga bílum hjá okkur og fjölga mannskap. Kíkja á bakvarðasveitina hjá okkur. Við höfum verið að hringja í mannskap og það eru allir reiðubúnir að koma um leið og kallið kemur.“

Jón Viðar leggur áherslu á að þrátt fyrir að álag sé á slökkvilið þá eigi fólk ekki að hætta við að hringja eftir sjúkrabíl ef þörf krefur.

„Það er enginn að trufla þó það hringi eftir sjúkraflutning. Sama og landlæknir hefur verið að predika að það þarf að sinna öllum. Covidið er til viðbótar en það þarf að sinna öllu og fólk má ekki hætta við að leita sér aðstoðar,“ segir Jón Viðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×