Innlent

Setur spurninga­merki við út­reikninga „grill­læknisins“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins áréttar í færslu á Facebook í dag að hann hafi aldrei sagst vilja „engar aðgerðir“ til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins hér á landi. Hann setur jafnframt spurningamerki við útreikninga Ragnars Freys Ingvarssonar, umsjónarlæknis Covid-göngudeildar Landspítala, sem sá síðarnefndi setti fram í pistli í gær, hvar hann gagnrýndi Brynjar fyrir afstöðu sína til kórónuveiruaðgerða.

„Getur verið að Brynjar eigi í erfiðleikum með að skilja tölur og margfeldi þeirra?“

Brynjar fullyrti í samtali við mbl.is í gær að heilbrigðiskerfið gæti ráðið við fleiri Covid-sjúklinga. „Það er ekki bara Landspítalinn sem getur séð um sjúklinga. Það sem ég er að segja er að heilbrigðis­kerfið í heild sinni getur ráðið við fleiri,“ sagði Brynjar og vísaði meðal annars til einkaaðila í heilbrigðisþjónustu.

Þá sagði Brynjar að ríkisstjórnin hlyti að velta því oft upp hvort ástæða væri til þess að fara rólegar í sakirnar í sóttvarnaaðgerðum sem hefðu lamandi áhrif á samfélagið allt, með tilliti til þess að skaðsemi þeirra kynni að vera meiri en augljós heilsufarslegur skaði af völdum veirunnar sjálfrar.

Ragnar kvaðst uggandi yfir þessum vangaveltum Brynjars í færslu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Hann sagði ljóst að ef faraldurinn fengi að dreifast um samfélagið án þess að gripið yrði til takmarkana myndi fjöldi sýktra margfaldast. „Getur verið að Brynjar eigi í erfiðleikum með að skilja tölur og margfeldi þeirra?“ spurði Ragnar. Færslu hans má sjá í heild hér fyrir neðan.

Brynjar tjáir sig um færslu Ragnars á Facebook í dag. Þar kallar hann Ragnar „landsþekktan grillara í læknastétt“, og vísar þar til þess að Ragnar er þekktur matgæðingur undir nafninu Læknirinn í eldhúsinu.

„Náði læknirinn slíkum hæðum í hroka að þingmaðurinn, sem kallar nú ekki allt ömmu sína í þeim efnum, bliknar í samanburðinum,“ skrifar Brynjar og bendir á að hann hafi aldrei sagst vilja sleppa öllum aðgerðum.

„Þingmaðurinn, sem var fyrir sæmilega illa þokkaður víða, hefur fengið yfir sig holskefluna, ekki síst frá fólki sem telur mikilvægt fyrir lýðræðið að við tölum saman og skiptumst á skoðunum.“

Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir Covid-göngudeildar Landspítalans.Stöð 2

Áhyggjur af heilbrigðiskerfinu

Þá vísar Brynjar til þess að Ragnar velti því upp hvort sá fyrrnefndi ætti erfitt með að skilja tölur. Brynjar kveðst, þrátt fyrir þessar vangaveltur um talnalæsi sitt, sjá ósamræmi í reikningsdæmi Ragnars.

„Hann byrjar á þvi að fullyrða að „fyrir hverja 1000 smitaða fáum við 32 innlagnir, 7 á gjörgæslu og 3 deyja, að minnsta kosti.“ Síðan segir talnaglöggi grillarinn í næstu setningu „að í þessari bylgju hafi um 1000 smitast, 24 eru á sjúkrahúsi, 4 á gjörgæslu og sem betur fer enginn dáið“. Þingmaðurinn er ekki svo ótalnaglöggur að sjá ekki ósamræmi í þessum tölum grillarans,“ skrifar Brynjar.

Hann viðrar að endingu áhyggjur sínar af heilbrigðiskerfinu til lengri tíma litið.

„En ótalnaglöggi þingmaðurinn getur þó reiknað út að með sama áframhaldi verður ekki hægt að leggja til jafn marga milljarða í heilbrigðiskerfið og nú er gert. Meira segja þekktir grillarar geta reiknað út hvað margir myndu deyja þá. Kannski nennir einhver síðar að reikna út hvað margir hafa dáið vegna þessara íþyngjandi aðgerða, sem nú hafa staðið lengi yfir.

Þingmaðurinn er ekki svo illa innrættur að hann skilji ekki áhyggjur fólks. En þingmaðurinn er bara að velta fyrir sér heildarhagsmunina til lengri tíma litið. Löngu tímabært að sú umræða sé tekin og ekki viss um að rétt sé að þagga hana niður eins og grillmeistarar reyna.“ Færslu Brynjars má sjá í heild hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

„Þetta er engin venjuleg flensa“

Ung kona sem greindist með Covid-19 í mars segist enn glíma við eftirköst veikindanna. Hún sé þó heppin miðaða við marga sem glími við erfið veikindi í langan tíma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×