Innlent

Búist við að tölur um fjölda smita verði háar næstu daga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi í vikunni.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi í vikunni. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ítreka tilmæli sín vegna aukins fjölda kórónuveirusmita, einkum á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga, sem aukið hafa líkur á veldisvexti í faraldrinum. Búast má við að tölur um fjölda smita verði háar næstu daga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

94 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, þar af voru 40 í sóttkví. Þá greindust átta smit á landamærunum en ekki er ljóst hvort um sé að ræða virk smit eða einstaklinga með mótefni.

Eftirfarandi eru tilmælin sem sóttvarnalæknir og almannavarnir ítreka:

  • Hvetjum alla á höfuðborgarsvæðinu til að vera eins mikið heima við og kostur er.
  • Ekki vera á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu nema nauðsyn sé til.
  • Verjum viðkvæma hópa og takmörkum heimsóknir til einstaklinga í áhættuhópum eins og hægt er.
  • Takmörkun fjölda í búðum – einn fari að versla frá heimili ef kostur er
  • Hvatt er til þess að þeir sem standi fyrir viðburðum á höfuðborgarsvæðinu fresti þeim
  • Klúbbar, kórar, hlaupahópar, hjólahópar og aðrir hópar sem koma saman geri hlé á starfsemi sinni.
  • Allir staðir á höfuðborgarsvæðinu þar sem almenningur á erindi herði allar sínar sóttvarnaraðgerðir, takmarki eins og hægt er fjölda, tryggi að allir geti sótthreinsað hendur við innganga, sótthreinsi snertifleti og gæti vel að hægt sé að virða fjarlægðarmörk.
  • Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu geri hlé á æfingum og keppni í öllum íþróttum.
  • Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu fresti keppnisferðum út á land.
  • Allir sem finni fyrir hinum minnstu einkennum haldi sig heima, fari í sýnatöku og líti á að þeir séu í einangrun þar til neikvæð niðurstaða úr sýnatöku liggi fyrir.

„Allir á höfuðborgarsvæðinu og víðar þurfa að koma með okkur í þetta átak og gæta sérstaklega vel að sér næstu vikur,“ segir í tilkynningunni.

Upplýsingafundur verður í dag klukkan 11. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn fara yfir stöðu mála varðandi framgang COVID-19 faraldursins hér á landi. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala verður gestur fundarins.

Fundurinn verður sýndur í beinni útsendingu hér á Vísi og á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísir.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×